fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Mögnuð frásögn Þórðar af björgunaraðgerðum í Langjökli – „Þetta hljómar og lítur mjög illa út“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 1. desember 2022 19:00

Þórður Guðnason - Skjáskot/Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 30. janúar árið 2010 átti sér stað hræðilegt slys á Langjökli. Það var um klukkan eitt sem björgunarsveitir fengu tilkynningu um að tvær manneskjur hefðu fallið ofan í sprungu en um var að ræða Hall­dóru Bene­dikts­dótt­ur og Gunnar Kristjánsson, 7 ára son hennar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var umsvifalaust send á svæðið og var lent á jöklinum um hálftíma síðar. Þegar björgunarsveitarmenn voru mættir á vettvang blasti sú staða við þeim að eina leiðin til að ná mæðginunum upp úr sprungunni væri ef þeir myndu láta sig síga öfuga niður til að ná þeim.

Þórður Guðnason, annar björgunarsveitarmannanna sem lét sig síga niður sprunguna, var gestur Óttars Sveinssonar í sjónvarpsþættinum Útkall á Hringbraut í gær, um er að ræða þætti sem byggðir eru á samnefndum bókum eftir Óttar.

„Eins og jörðin hefði gleypt þau“

Í þættinum fór Þórður yfir slysið og aðdragandann að því. „Þetta var jeppahópur á ferð sinni um Langjökul í blíðskaparverði, að ferðast þarna laugardagsrúnt, keyra þarna nánast upp á hábunguna,“ segir hann. „Svo lendir einn jeppinn í því að falla með annað framdekkið ofan í sprungu og þá stöðvast jeppaferðin aðeins.“

Fólkið fer þá út úr jeppunum og fer að viðra sig á meðan verið var að draga bílinn upp úr sprungunni. Halldóra og Gunnar voru á meðal þeirra sem fara úr bílnum til að viðra sig, þau stefndu í áttina að stað sem gat verið varasamur. Á svæðinu var maður sem ætlaði að vara þau við, Hlynur Sigurðsson. „Ég gerði mér skyndilega ljóst að þetta gæti orðið hættulegt,“ er haft eftir Hlyni. „Ég var nánast að draga andann og byrja að kalla viðvörunarorðin, passið ykk…“

En á sömu sekúndu og Hlynur ætlaði að kalla til mæðginanna hurfu þau á örskotshraða. „Eins og jörðin hefði gleypt þau.“

„Þetta hljómar og lítur mjög illa út“

Fólkið á svæðinu hafði samband við 112 og björgunarsveitirnar fengu útkall, Þórður og fleiri björgunarsveitarmenn brunuðu strax af stað upp á Langjökul. „Bara eins hratt og mögulegt er,“ segir Þórður. „Það er fljúgandi hálka á leiðinni og kannski ekki bestu aðstæður til að keyra mjög hratt en engu að síður erum við komnir frá Akranesi og upp undir Langjökul á í kringum klukkutíma.“

Þar kom þyrla Landhelgisgæslunnar og flutti þá upp að slysstað en einnig var búið að flytja björgunarsveitarmenn frá Reykjavík upp að jöklinum.

Þegar upp var komið á jökulinn var byrjað að undirbúa allt svo hægt væri að síga niður að ná í mæðginin. Sem fyrr segir seig Þórður öfugur niður í sprunguna en hann útskýrir í þættinum að sprungan hafi verið afar þröng. Hann þurfti því að vera með báða fætur í sömu átt og horfa á hlið til að troða sér ofan í sprunguna. „Þú ert að reyna að troða þér svolítið eins langt og þú getur, þú ert orðinn pínu skakkur og farinn að festast í sprunguveggjunum, þyngdin er byrjuð að hvíla að hluta til á veggjunum. Þegar þú andar djúpt þá ertu í raun og veru fastur,“ segir hann.

Björgunarsveitarmenn náðu að hífa Halldóru fyrst upp úr sprungunni en hún reyndist þá því miður vera látin. Sonur hennar var ennþá í sprungunni og hann var á lífi en það var farið að liggja á. „Þegar ég kem í sprunguna þá eiginlega bara svarar hann, hann svarar með „já“ fyrst og svona, ekkert mikið meira en það. En svo heyrum við það að það byrjar fljótt að draga af honum,“ segir Þórður.

„Þetta hljómar og lítur mjög illa út til þess að ná að framkvæma þetta í raun og veru.“

Þórður segir að svo hafi hann farið aftur niður í sprunguna. „Þegar ég kem aftur niður þá stendur til að það komi annar björgunarmaður innan skamms á eftir mér til aðstoðar. Við erum með fullt af hugmyndum um hvernig við getum reynt að bjarga honum eða koma böndum á hann.“

Fyrst komu hugmyndir um að reyna að beygja snjóflóðastangir, binda í endana og reyna að veiða hann með þeim. Það átti þó eftir taka tíma að útbúa svo Þórður fór aftur niður. „Á meðan geri ég nokkuð margar tilraunir til að reyna að koma alveg niður til hans,“ segir hann en það gekk ekki þrátt fyrir margar tilraunir.

„Þetta er svona hálfvonlaust, ég er að reyna að láta línu með hnút sveiflast niður því ég sé að sprungan er dýpri, er að reyna að láta línuna til að sveiflast í stóran pendúl undir hann. Ég gæti þá hugsanlega reynt að veiða hinn endann og við gætum þá kannski togað hann þannig upp en það gengur engan veginn.“

Ljóskastarinn reyndist afar hjálplegur

Á þessum tímapunkti var „örstutt“ í að næsti björgunarsveitarmaður kæmi til að hjálpa Þórði en það átti þó eftir að taka sinn tíma. „Ég fer aftur í sprunguna um klukkan korter yfir þrjú, eitthvað svoleiðis, og, ég er ekki alveg með nákvæma tímasetningu lengur í hausnum, en ætli það sé ekki einhvers staðar á milli hálf fimm og korter í fimm sem hinn björgunarsveitarmaðurinn kemur niður,“ segir Þórður.

„Hann kemur með ljóskastara sem lýsir upp alla sprunguna. Það hjálpar okkur rosalega að sjá almennilega hvernig hann liggur. Hann festir hann í vegginn og kemur svo til mín með snjóflóðastöng, við erum sammála um að ég reyni aftur. Ég ætla mér að reyna að spenna löppina á honum [Gunnari] frá með snjóflóðastöng, komast eins nálægt honum og ég get og veiða löppina með línu.“

Þórður snéri sér þá við, róaði sig niður og svo var hann látinn síga lengra niður í sprunguna. Hann náði að lokum að spenna löpp Gunnars frá veggnum og veiddi svo löppina með lykkju. „Þegar ég er búinn að koma þessari lykkju inn fyrir þá prófa ég sjálfur að toga í línuna og sé að þessi eina lykkja mun aldrei duga. Ég verð að reyna að binda einhvern hnút, helst hestahnút,“ segir Þórður sem gerði einmitt það.

„Það var kominn hestahnútur á löppina á honum og upp á kálfann. Ég strekki vel í og fæ þetta til að virka, mér finnst að þetta ætti að ganga.“

Þá var kallað upp og beðið um að toga línuna. „Það heyrist beint í fjarskiptum: Einn maður að toga og tveir menn að toga og þrír menn að toga og fjórir menn að toga. Þá poppar hann laus og bara hálfpartinn flýgur í hendurnar á mér,“ segir Þórður. „Þá bið ég þá um að hífa mig á sama hraða og hann.“

Hann segir að það hafi verið góð tilfinning að fá Gunnar í fangið. Þegar þeir komust upp var mikill æsingur því drengurinn var ekki með mikla meðvitund. „Áður en ég veit af er hann horfinn bara, hann er fluttur beint í fangið á lækni og út í þyrlu.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Þórð í heild sinni í Útkallsþættinum sem finna má á vef Hringbrautar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg