Óskar Örn Hauksson mun reima á sig takkaskóna með nýju félagi hér á landi næsta vor en ekki er ljóst hvert það verður.
Hinn 38 ára gamli Óskar var á mála hjá Stjörnunni í sumar, en þangað kom hann í fyrra eftir langa og farsæla dvöl hjá KR.
„Persónulega hefði maður kannski viljað sjá þetta fara öðruvísi, ég neita því ekki. Ég tel nú samt á köflum að ég hafi sýnt ágætis frammistöðu. Sýnt fram á hluti sem ég hef sýnt fram á áður á mínum ferli,“ segir Óskar um tímabilið með Stjörnunni, í samtali við Fréttablaðið.
„Stjarnan getur unað vel við sinn árangur sem lið. Það töpuðust auðvitað of margir leikir en hvað sæti í deildinni varðar var þetta nokkuð gott.“
Óskar staðfestir að hann muni spila áfram næsta sumar.
„Ég á von á því. Þetta tímabil í sumar var kannski ekki að hjálpa upp á gleðina í þessu en mér finnst nú enn þá gaman í fótbolta. Þegar maður hættir í fótbolta þá kemur hann ekkert aftur og ég geri mér grein fyrir því. Ég á ekki mörg ár eftir í þessu en ég held áfram.“
Nánar er rætt við Óskar í Fréttablaðinu.