Það leikur allt í höndunum á kvikmyndastjörnunni Dwayne „The Rock“ Johnson en hinn fimmtugi leikari er ein launahæsta stjarna Hollywood. En staðan var ekki alltaf svo björt. Johnson, sem er fæddur og alinn upp á Hawaii, bjó við þröngan kost í æsku. Ekki var nóg til að bíta og brenna á heimili hans og á dögunum viðurkenndi stórstjarnan að hafa stolið Snickers-súkkulaðistykki á hverjum degi úr 7-Eleven hverfisversluninni þegar hann var á táningsaldri. Hann segir að sami starfsmaðurinn hafi alltaf verið í versluninni og sá hafi eflaust vitað hvað var í gangi en alltaf litið undan.
Johnson greindi frá því í Instagram-pósti á dögunum að hann hefði alltaf iðrast hnuplsins og dreymt um að gera hreint fyrir sínum dyrum. Á dögunum lét hann svo verða af því þegar hann heimsótti gömlu hverfisverslunina á Hawaii og keypti öll Snickers-stykkin sem voru til í versluninni. Hann bætti svo um betur og borgaði einnig reikning annarra viðskiptavina sem voru staddir í búðinni og eyddi alls um 120 þúsund krónum.
Í færslu á Instagram-síðu sinni segist Johnson enn eiga eftir að bæta fyrir nokkur skammarstrik úr æsku sinni en honum var greinilega létt eftir að hafa gert upp Snickers-skuldina.
View this post on Instagram