Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 24. nóvember síðastliðinn var lagt fram minnisblað þar sem lagt er til að Bókasafn Reykjanesbæjar verði flutt í Hljómahöll í aðstöðu rokksafnsins og að Rokksafni Íslands verði fundinn annar staður. „Þetta er liður í því að Hljómahöll verði menningarhús Reykjanesbæjar til framtíðar,“ segir í fundargerð bæjarráðs um málið.
Málið hefur valdið nokkurri ólgu meðal íbúa bæjarins ef marka má viðbrögð við færslu sem birt var í hópi íbúa Reykjanesbæjar á Facebook. „Hvað er ég að lesa í fundargerð bæjarstjórnar. Er verið að loka Rokksafninu??? Hvar á Rokksafnið heima annars staðar en í Hljómahöll þar sem að tónlist ræður ríkjum. Það hlýtur að vera gáfulegra að finna annan stað fyrir Bókasafnið,“ segir íbúinn sem birtir færsluna en miklar umræður hafa myndast í athugasemdakerfinu við hana.
Ein þeirra sem tjáir sig um málið er María Rún Baldursdóttir, plötusnúður og fyrrum útvarpskona á X-inu, en hún býr í bænum. „Þetta er auðvitað ein fáránlegasta hugmynd sem ég hef heyrt og ég næ engan vegin utan um það að einhver haldi að þetta sé besta lausnin,“ segir hún.
María segir Hljómahöllina vera tónlistarhús og að það hafi verið byggt og hannað sem slíkt. „Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir allri starfseminni sem fer fram í húsinu og hvað Rokksafnið spilar stóran part í viðburðarhaldi hússins og sömuleiðis menningu Reykjanesbæjar – sem er nú því miður ekki nógu öflug,“ segir hún enn fremur.
„Gjörsamlega glatað að sundra starfsemi og heildarmynd hússins svona. Rokksafnið er eitt mesta aðdráttarafl bæjarins bæði fyrir ferðamenn og sömuleiðis íbúa Íslands. Tala nú ekki um hvað það myndi aldrei ganga upp að opna bókasafn í sama rými og tónlistarskóla uppá hljóðmengun. Þetta er nú meira djókið og ég á erfitt með að trúa að það verði úr þessu. Ef að það væri eitthvað til í því að „Rokksafni Íslands verði fundinn annar staður“ þá væri alveg eins hægt að færa bókasafnið annað í stað þess að færa tvö söfn!“
Björgvin Ívar Baldursson, bróðir Maríu og eigandi Paddy’s, eins vinsælasta skemmtistaðar bæjarins, spyr hvort það sé ekki hægt að eyða minnisblaðinu áður en það spyrst út. „Þetta hlýtur að vera eitthvað grín. Ég var búinn að skrifa meira en svo mundi ég að ég er að taka mig á í að tala ekki illa um aðra á internetinu,“ segir Björgvin svo.
Ljóst er að María og Björgvin eru ekki þau einu sem eru á þessari skoðun. Þau sem taka til máls í athugasemdunum eru fæst sátt með þessa tillögu bæjarráðs. „Fólk á fullum launum við að bulla út í loftið, manni fallast bara hendur…“ segir til að mynda einn íbúi. „Verulega vanhugsað,“ segir annar íbúi. „Hvaða rugl er þetta?“ segir svo enn annar.
Ein kona í hópnum notar tilefnið til að láta bæjarráðið, og raunar ríkið sjálft líka, heyra það fyrir það sem er að í bæjarfélaginu. „Það er eins og Reykjanesbær og einnig ríkið átti sig ekki á hversu mörg við erum orðin og þá bara í okkar bæjarfélagi,“ segir hún.
„Það er ekki nóg að byggja og byggja íbúðir ef ekki fylgja innviðir með. Það er komin tími á fjölnota mennigarhús, það vantar félagsaðstöðu fyrir ungmenni í bæjarfélaginu, það vantar afþreyingu í formi leikjagarðs fyrir fjölskyldur. Það að loka Rokksafninu og færa bókasafnið þangað er einn enn plásturs-aðferðin. Hugsum frekar fram í tíman en ekki alltaf að vera í einhverjum plásturs-viðbragðs-áætlunum.“
Það eru þó ekki allir meðlimir hópsins sammála um að tillagan sé skelfileg, einn íbúi hrósar henni. „Frábær hugmynd að setja tónlistaskóla, bókasafn og hljómleikahús undir sama þak. Þrjár stofnanir sem bjóða okkur flesta lifandi viðburðina. Þannig er menningarhúsið nærri komið. Svo er húsið nokkurn veginn miðsvæðis. Thumbs up á þetta,“ segir sá íbúi.