Michael Turner, 52 ára gamall afi, var nakinn og í annarlegu ástandi er hann rústaði hótelherbergi. Skemmdirnar sem hann olli í herberginu nema 48 þúsund pundum eða rúmum 8 milljónum í íslenskum krónum. Daily Star fjallar um málið.
Dale Smith, annar eigenda Heritage hótelsins í bænum Porthcawl í Wales, kom að Turner nöktum í herberginu sínu. Smith hafði farið inn í herbergið því aðrir gestir á hótelinu höfðu kvartað undan leka frá herbergi afans.
Turner eyðilagði, meðal annars, glerið í sturtunni en það olli því að vatn lak í gegnum gólfið og niður í herbergin á hæðinni fyrir neðan. Turner eyðilagði ekki bara glerið í sturtunni heldur skemmdi hann einnig veggi, teppi og raftæki í herberginu.
Fyrir dómi hélt Turner því fram að hann bæri enga ábyrgð á skemmdunum í herberginu, hann gekk meira að segja svo langt að segja að herbergið væri í „fullkomnu ásigkomulagi“. Þegar hann var handtekinn á hótelinu sagðist hann ekki kannast neitt við að hafa rústað herberginu.
Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem afinn fer fyrir dómstóla en hann hefur fengið 36 dóma um ævina, þar á meðal fyrir skemmdir og innbrot. Andrew Taylor, lögmaður Turner, sagði að hann ætti að baki erfiða fortíð sem lituð er af eiturlyfjaneyslu. „Turner segir mér að hann verði að byrja að koma undir sig fótunum að nýju,“ sagði Taylor. „Hann er með geðræna kvilla og er búinn að skilja við maka sinn til 24 ára en hann vill byggja aftur upp samband með börnum og barnabörnum sínum.“
Turner þarf þó að bíða aðeins með það þar sem hann var dæmdur í 14 og hálfs mánaðar fangelsi.