Versta martröð allra foreldra er að eitthvað komi fyrir börnin þeirra en þegar fullorðnir eru einir með barn eða börnum læðist sú hugsun væntanlega seint að þeim að eitthvað geti komið fyrir þá sjálfa. En líkurnar á því eru kannski ekki minni en að eitthvað komi fyrir barnið.
Hjartaáfall, heilablóðfall eða slys eru meðal þess sem getur gerst þegar maður á síst von á. En hvað gera börnin ef eitthvað þessu líkt gerist?
Neyðarvörðurinn Jason Bonham, sem starfar hjá bandarísku neyðarlínunni 911, gleymir aldrei símtali sem hann svaraði fyrir mörgum árum. Þá hringdi Savannah Hensley, fimm ára, og sagði að faðir hennar ætti erfitt með andardrátt og þyrfti að fá hjálp strax.
Svo ótrúlegt sem það kann að hljóma þá var Savannah mjög róleg og yfirveguð og svaraði spurningunum sem Bonham lagði fyrir hana. Hún kannaði með ástand föður síns, Frank, og sagði að hann gæti ekki talað.
Bonham sagði síðar að hann hafi verið hissa en um leið hafi honum létt við af hversu mikilli yfirvegun Savannah tók á málinu.
Hún veitti greinargóðar upplýsingar um ástand föður síns og tók útidyrnar úr lás til að sjúkraflutningsmenn kæmust inn.
En hún hafði líka áhyggjur af öðru og því gleymir Bonaham aldrei. „Við erum í náttfötum . . . og ég er í náttkjól. Ég verð að gera mig klára. Ég veit ekki í hverju ég á að vera en hann hefur virkilega mikla þörf fyrir súrefni, mjög fljótt,“ sagði hún.
Eftir að hún hafði fullvissað Bonham um að hún myndi vera við hlið föður síns og tala við hann sagði hún honum frá fjölskylduhundinum Lou: „Við eigum hund . . . hann er mjög lítill.“
Hún hafði auga með föður sínum þar til sjúkraflutningsmenn komu á vettvang. Þeir gátu veitt honum nauðsynlega aðstoð og allt endaði þetta vel.
Hér fyrir neðan er hægt að heyra símtalið.