Bayern Munchen bindur en vonir um að fá Harry Kane frá Tottenham og ætlar að undirbúa tilboð í hann. Það er Sky í Þýskalandi sem heldur þessu fram.
Greint var frá áhuga Bayern í framherjann í sumar en svo virtust orðrómar um hugsanleg skipti Kane til Þýskalands deyja út.
Svo er hins vegar ekki og hafa þýsku meistararnir enn mikinn áhuga.
Kane var nálægt því að fara frá Tottenham sumarið 2021, þegar útlit var fyrir að hann gengi í raðir Manchester City.
Svo fór hins vegar ekki. Á þeim tíma átti Kane þrjú ár eftir af samningi sínum og Tottenham í sterkri samningsstöðu.
Nú á hann hins vegar aðeins um eitt og hálft ár eftir af samningi sínum í Norður-Lundúnum.
Nú er Kane á fullu með enska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í Katar og ljóst að hann veltir framtíð sinni hjá félagsliði sínu lítið fyrir sér á meðan England er enn með þar.