Það fór allt á hliðina á síðustu Óskarsverðlaunahátíð eftir að leikarinn Will Smith gerði sér lítið fyrir og skellti sér upp á svið og rak grínistanum Chris Rock hörkulegan kinnhest eftir að Rock gerði grín að blettaskalla eiginkonu hans.
Kinnhesturinn heyrðist um allan heim, ef svo mætti komast að orði, og var um fátt annað rætt í kjölfar hátíðarinnar. Svo fór að Will Smith var bannaður frá hátíðinni næsta áratuginn og hafði atvikið gífurlega neikvæð áhrif á orðspor Smith sem hafði þangað til verið þekktur sem viðkunnanlegur og vinalegur leikari.
Nú hefur leikarinn mætt í sitt fyrsta stóra viðtal frá atvikinu, en hann var gestur hjá Trevor Noah i The Daily Show á dögunum. Þar útskýrði hann að hann hafi hreinlega verið að ganga í gegnum eitthvað í sínu einkalífi þegar hann mætti á hátíðina.
„Ég var að ganga í gegnum dálítið þetta kvöld, þú skilur? Ekki að það réttlæti framkomu mína neitt“
Smith útskýrði að það hafi verið margir þættir sem höfðu áhrif en hann hafi hreinlega misst stjórn á skapi sínu.
„Ég skil að þetta var sláandi fyrir fólk. Ég var bara farinn. Þetta var reiði sem hafði verið að safnast upp í mjög langan tíma.“
Smith sagði að í kjölfarið hafi hann hitt barnungan frænda sinn sem hafi spurt hann hvers vegna hann hefði „slegið þennan mann“ og þetta hafi bara verið „algjört rugl“
Smith sagði að ný skilji hann betur það orðatiltæki að sært fólk særi fólk.
„Þetta voru margir hlutir. Þetta var litli drengurinn sem horfði upp á föður sinn berja móður sína, þú veist? Allt þetta sauð upp á yfirborðið á þessari stundu. Þetta er ekki sá maður sem ég vil vera.“
Smith hefur áður opnað sig um það að alast upp við heimilisofbeldi, en faðir hans réðst á móður hans fyrir framan hann. Hann segir um kinnhestinn að fólk geti aldrei vitað hvað einhver er að ganga í gegnum – en hann útskýrði þó ekki nánar hvað hann meinti með því, en sagðist sjálfur hafa verið að ganga í gegnum nokkuð þetta tiltekna kvöld. Hann hafi í kjölfarið þurft að fyrirgefa sjálfum sér.
„Treysti mér það er enginn sem hatar þá staðreynd að ég er mannlegur meira en ég. Ég hef alltaf viljað vera Ofurmennið. Ég hef alltaf viljað koma ríðandi á hesti til að bjarga dömunni úr klípu. Og ég þurfti að verða auðmjúkur og viðurkenna að ég er gölluð mannvera og ég hef enn tækifæri á því aðf ara út í heiminn og leggja þar mitt af mörkum með þeim hætti að það fyllir hjarta mitt og vonandi hjálpar öðru fólki.“
Will Smith er um þessar myndir að kynna nýju mynd sína – Emancipation – sem kemur út í næstu viku. Hann hefur sagt að hann hafi áhyggjur af því að kinnhesturinn eigi eftir að hafa áhrif á möguleika myndarinnar að vinna til verðlauna og þykir honum það glatað.
„Mikið af bestu listamönnum í heiminum hafa gert eitt af bestu verkum ferils síns. Ég vona að verk þeirra verði heiðrað og vinna þeirra verði ekki lituð af hryllilegri ákvörðun sem ég tók.“