Lítið munkahof í Tælandi er nú munka-laust eftir að öllum munkunum var vikið þaðan eftir að þeir stóðust ekki lyfjapróf.
Í norðurhluta héraðsins Phetchabun í Taílandi reyndust fjórir munkar, og þar á meðan ábótinn, jákvæðir fyrir amfetamíni á lyfjaprófi. Þeir voru í kjölfarið sendir á meðferðarstofnun í afvötnun.
Lyfjaprófin voru framkvæmd sem liður í herferð gegn eiturlyfjasölu. BBC greinir frá því að munkunum hafi verið vikið úr hofinu eftir að lögregla lét þá undirgangast lyfjapróf á mánudaginn og féllu þeir allir á því. Ekki hefur komið fram hvers vegna lögreglan ákvað að lyfjaprófa munkana.
Íbúar í nálægu þorpi eru nú áhyggjufullir þar sem þeir geta ekki leitað á náðir hofsins, sem stendur nú autt. Yfirvöld í héraðinu hafa þó lofað því að leita á náðir munkaráðgjafa sem ætlar að redda afleysingar-munkum í hofið til að friðþægja þorpsbúa.
Amfetamín-neysla er mikið vandamál í Tælandi og náði magn upptekinna efna nýjum hæðum á síðasta ári. Talið er að efnið komi í miklu magni frá Mjanmar sem er heimsins öflugasti framleiðandi amfetamíns. Efnið er í pilluformi og er svo selt á götum úti.