Mario Ferri, maðurinn sem hljóp inn á völlinn í miðjum leik Úrúgvæ og Portúgals á Heimsmeistaramótinu í Katar í gærkvöldi segist nú laus án frekari afleiðinga.
Ferri hljóp inn á völlinn klæddur í bol þar sem stóð „Björgum Úkraínu.“.
Bolurinn er til stuðnings Úkraínu en Rússland réðst inn í landið í upphafi árs og hefur stríð verið í gangi síðan þá.
Var maðurinn einnig með fána hinsegin fólks, hafa yfirvöld í Katar tekið hart á öllum sem reyna að sýna hinsegin fólki stuðning í landinu.
Ferri var handsamaður á vellinum en miðað við orð hans verður honum ekki refsað, eins og margir höfðu búist við.
Portúgal vann leikinn í gær 2-0 með mörkum frá Bruno Fernandes. Liðið er komið áfram í 16-liða úrslit.