Cody Gakpo hefur verið sterklega orðaður við Manchester United undanfarið. Hann hefur nú tjáð sig um þessa orðróma.
Þessa stundina er hinn 23 ára gamli Gakpo staddur á Heimsmeistaramótinu í Katar með hollenska landsliðinu. Hann hefur skorað í báðum leikjum liðsins í riðlakeppninni til þessa og heillað mikið.
Sóknarmaðurinn er á mála hjá PSV í heimalandinu en líklegt er að hann fari þaðan fljótlega. United hefur helst verið nefnt sem hugsanlegur áfangastaður kappans.
„Núna einbeiti ég mér að HM en það er alltaf gaman að heyra svona orðróma. Ég reyni hins vegar bara að gera mitt besta hér og einbeita mér að því,“ segir Gakpo.
„Ég veit hverju ég bý yfir en það er alltaf erfitt að ná þínu hæsta mögulega stigi. Ég er ekki þar enn og get bætt mig í mörgu.“
Tölfræði Gakpo í hollensku úrvalsdeildinni er hreint ótrúleg. Hann hefur skorað níu mörk og lagt upp tólf í fjórtán leikjum.