fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Brynja Dan um sorg, söknuð og missi – „Ég kvíði alltaf fyrir desember“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 29. nóvember 2022 12:00

Brynja Dan. Mynd/Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athafnakonan og bæjarfulltrúinn Brynja Dan Gunnarsdóttir opnar sig um sorg og söknuð í desember. Hún missti báða foreldra sína ung og hátíðarmánuðurinn – tími sem fólk eyðir í faðmi fjölskyldunnar, rifjar upp og býr til nýjar minningar – reynist henni alltaf erfiður.

Brynja hélt ræðu í minningarstund í Garðakirkju og ræddi einnig um þetta á Instagram, þar sem hún er með tæplega 20 þúsund fylgjendur.

„Ég hef kviðið desember núna í 23 ár eða síðan pabbi minn dó. Ég missti hann þegar ég var 14 ára og mömmu þegar ég var 18 ára. Og það er sama hvað árin líða, Ég kvíði alltaf fyrir desember. Ég er alltaf örlítið þyngri á mér, aðeins þreyttari, aðeins viðkvæmari og alltaf eins og kökkurinn í hálsinum sé nær en aðra daga,“ segir hún.

Hún segir að ástæðan fyrir því að desember sé sérstaklega erfiður mánuður sé vegna þess að desember er tími gæðastunda og minninga.

„Það er mánuður þar sem við hjúfrum okkur saman, eigum gæðastundir með fjölskyldunni. Hugsum oftar um minningarnar sem við eigum því jólaminningar eru oftast góðar minningar. Bökum saman, spilum saman, borðum saman og eigum hefðir sem við ríghöldum í.“

Brynja segir að þó hún geri þetta með dásamlega fólkinu í kringum hana þá er hún alltaf með tómleika tilfinningu innra með henni sem hverfur ekki.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by B R Y N J A D A N (@brynjadan)

Heldur hefðunum gangandi

Brynja heldur gömlum fjölskylduhefðum gangandi. Hún fer út að borða á Þorláksmessu eins og móðir hennar gerði með henni og systur hennar. Hún bakar með fyrrverandi tengdamóður sinni, sem hefur haldið utan um hana frá því hún var sautján ára gömul, og heldur jólin með barnsföður sínum.

„[Hann] eldar jólamatinn sem mamma eldaði. Sniglar í forrétt eins skringilega og það hljómar þá eru það bara jólin fyrir mér og vanafasta barnið í mér fær að halda því. Fyrir mér er það dýrmætt og heldur mömmu lifandi með okkur og Máni strákurinn minn sem hefur aldrei hitt hana einhvern veginn þekkir hana smá, í gegnum svona hluti.“

Syrgir það sem aldrei var

„Maður er alltaf að syrgja það sem hefði átt að vera. Alla áfangana í lífinu. Þegar ég eignaðist barn þá sáu þau hann ekki og mikil sorg sem fylgdi því. Þau sáu mig ekki útskrifast, ekki halda fyrstu ræðuna mína á alþingi, ekki Mána minn fermast, sjá hann ekki vaxa og dafna, grípa mig ekki þegar ég dett. Þau kynnast ekki vinkonum mínum og vinum, ekki barnsföður mínum og fjölskyldu, og ekki yndislega kærastanum mínum og fjölskyldunni hans. Svo maður er alltaf að syrgja eitthvað nýtt sem þau hefðu átt að vera stór partur af. Og það er það sem nístir alltaf aðeins. Því þetta er fólkið sem maður deilir hlutunum með og vill gera stolt. Þannig að þegar ég gleðst þá er partur af mér alltaf smávegis að syrgja líka,“ segir hún.

„En auðvitað milda árin sársaukann.. og maður lærir að gleðjast í gegnum td börnin sín. Tíminn vissulega deyfir og mildar en þetta hverfur aldrei og það er það sem kannski kemur mér á óvart. Að ég sé 37 ára og enn að sakna.“

Leyfið ykkur að finna

Brynja beinir síðan orðum sínum að þeim sem finnst desember örlítið erfiðari en aðrir mánuðir.

„Hvort sem við erum að syrgja ástvini eða bara leið yfir að vera í vaktavinnu og að vera ekki með fjölskyldu eða að vera ekki með börnin okkar þessi jólin,“ segir hún og heldur áfram:

„Leyfið ykkur bara að finna allar heimsins tilfinningar því þær eiga rétt á sér. Þetta er bara erfiður mánuður en hann kemur og hann fer og svo tökum við fagnandi á móti 1. janúar. Nýju ári og nýrri byrjun. Svo er það bara þannig að 24. desember er ekki heilög dagsetning, það má halda jólin hvenær sem er.“

 

View this post on Instagram

 

A post shared by B R Y N J A D A N (@brynjadan)

Ræðuna má lesa í heild sinni hér að neðan, birt með leyfi frá Brynju:

Sorgin

Ég get bara talað út frá minni sorg og minni reynslu.

Ég hef ekki misst maka eða barn en hef misst. Og sorg er alltaf sorg. Og við tökumst á við hana á mismunandi hátt. Engin rétt leið eða röng. Bara okkar leið.

Það er nú bara þannig að við komumst fæst í gegnum lífið án þess að upplifa sorg. En ef við erum lánsöm þá kemur hún í svona réttri röð ef ég má orða það þannig. Hvað meina ég með því? Það er bara þannig að ef maður er heppinn þá mun maður til dæmis syrgja ömmur og afa, og svo foreldra sína einn daginn en ekki öfugt, þó auðvitað maður voni að það sé á seinni hluta ævinnar.

Sorgin er svo vond tilfinning og svo erfið.

Þessi stanslausi verkur í hjartanu.

En fyrir mér er hún líka svo falleg, svo hrá tilfinning. Hún þvingar okkur í að finna til og neyðir okkur til að staldra við og meðtaka tilfinningarnar okkar og ákveða hvernig við ætlum að takast á við þær.

Mér var einu sinni sagt að ég væri eins og pálmatré og ég vil meina að við séum það öll. Í storminum leggjumst við niður og bognum en brotnum ekki og reisum okkur svo upp þegar hann er yfirstaðinn, aðeins sterkari, aðeins þroskaðri og aðeins dýpri manneskjur með þykkari skráp.

Ég hef kviðið desember núna í 23 ár eða síðan pabbi minn dó. Ég missti hann 14 ára og mömmu 18 ára. Og það er sama hvað árin líða, ég kvíði alltaf fyrir desember. Ég er alltaf örlítið þyngri á mér, aðeins þreyttari, aðeins viðkvæmari og alltaf eins og kökkurinn í hálsinum sé nær en aðra daga.

En af hverju í desember? Því það er mánuður þar sem við hjúfrum okkur saman, eigum gæðastundir með fjölskyldunni. Hugsum oftar um minningarnar sem við eigum því jólaminningar eru oftast góðar minningar. Bökum saman, spilum saman, borðum saman og eigum hefðir sem við ríghöldum í.

Ekki misskilja mig, ég geri þetta allt með dásamlega fólkinu í kringum mig. Og ég veit að það eru allir tilbúnir að gera allt með mér en það er alltaf þessi tóma tilfinning sem bara fer ekki. Ég get einhvern veginn ekki skilgreint hana nógu vel en hún er þarna og ég er bara mjög meðvituð um að á þessum tíma eru vinkonur mínar til dæmis mikið með mæðrum sínum, ömmurnar mikið með barnabörnin og þar fram eftir götunum.

Það sem ég gerði samt strax í upphafi er að ég raðaði fólki í kringum mig sem var til í að taka þátt í gömlu hefðunum mínum með mér. Ég baka með elsku fyrrverandi en ævarandi tengdamömmu minni sem hefur haldið utan um mig frá því ég var 17 ára. Fer út að borða á Þorláksmessu eins og mamma gerði alltaf með okkur systrum. Elsku barnsfaðir minn sem ég hef alltaf haldið jólin með hefur aldrei beðið um annað og eldar jólamatinn sem mamma eldaði. Sniglar í forrétt eins skringilega og það hljómar þá eru það bara jólin fyrir mér og vanafasta barnið í mér fær að halda því. Fyrir mér er það dýrmætt og heldur mömmu lifandi með okkur og Máni strákurinn minn sem hefur aldrei hitt hana einhvern veginn þekkir hana smá… í gegnum svona hluti.

Jólin hafa verið mis erfið – þau eru ekki alltaf klukkan 18. Stundum hef ég verið lítil í mér og þau haldin kl. 20 eða 22 og stundum á náttfötunum. Bara það sem hentar hverju sinni.

Og ég er hætt að setja pressu á mig. Að ég þurfi í öllu stressinu að vera upp í garði með hálfu landinu kl. 17:40 á aðfangadag.

Í fyrsta lagi þá hef ég litla þörf fyrir að fara í garðinn og það er í lagi. Ég þurfti að læra að það er í lagi. Í öðru lagi þá fer ég bara þegar ég kemst. Hvort sem það er 23. desember eða bara milli jóla og nýárs. Það skiptir engu. Hættum að setja þessa óþarfa pressu á okkur, það gerist ekkert ef við erum ekki þar kl. 18 á aðfangadag.

En svona til að kannski setja þetta í samhengi þá snýst þetta um að maður er alltaf að syrgja það sem hefði átt að vera. Alla áfangana í lífinu, þegar ég eignaðist barn þá sáu þau hann ekki, og mikil sorg sem fylgdi því, sáu mig ekki útskrifast, ekki halda fyrstu ræðuna mína á alþingi, ekki Mána minn fermast, sjá hann ekki vaxa og dafna, grípa mig ekki þegar ég dett, þau kynnast ekki vinkonum mínum og vinum, ekki barnsföður mínum og fjölskyldu, og ekki yndislega kærastanum mínum og fjölskyldunni hans. Svo maður er alltaf að syrgja eitthvað nýtt sem þau hefðu átt að vera stór partur af. Og það er það sem nístir alltaf aðeins. Því þetta er fólkið sem maður deilir hlutunum með og vill gera stolt. Þannig að þegar ég gleðst þá er partur af mér alltaf smávegis að syrgja líka.

Eitt svona dæmi er að í 20 ár hef ég hugsað, hvað ef ég gifti mig einn daginn. Hver leiðir mig upp að altari, hver situr á háborðinu mín megin. Og ég veit að það eru 100 manns sem myndu glöð gera það fyrir mig.. en það er ekki það sem ég er að hugsa heldur er þetta eitthvað sem ég syrgi og verð bara að fá að gera það. Einhver framtíð sem verður ekki. Þó ég viti að ef til þess kemur þá auðvitað reddast allt og það þarf bara enginn að vera í þessum hlutverkum eða bara hver sem er getur gert það. Það snýst ekki um það heldur bara að fá að stundum sitja í sorginni og heyra bara já það er ömurlegt, því fáir skilja. Eða bara sitja bara í þögninni og fá knúsið. Það þarf engin svör stundum.

En auðvitað milda árin sársaukann og maður lærir að gleðjast í gegnum til dæmis börnin sín. Tíminn vissulega deyfir og mildar en þetta hverfur aldrei og það er það sem kannski kemur mér á óvart. Að ég sé 37 ára og enn að sakna.

En það er nú þannig að sorgin og gleðin eru systur. Við erum sorgmædd yfir því sem eitt sinn gladdi okkur og ég reyni að einbeita mér að því. Að halda foreldrum mínum og nú ævarandi tengdapabba sem kvaddi á árinu með okkur. Með því að skoða myndir, hafa myndir uppi við, ræða þau endalaust, hlusta á lög sem minna okkur á þau, og kynna fólkið mitt fyrir þeim. Halda þeim sem part af okkur og þannig finnst mér þau einhvern veginn partur af lífinu okkar og það sem skiptir mig mestu að Máni minn fái tilfinningu fyrir þeim og einhverskonar hlýju. Og þó það sé oft þannig að maður ætli ekki að verða eins og foreldrar sínir þá er það eitt það notalegasta sem ég fæ að heyra þegar ég missi eitthvað eða brýt eitthvað: „Þú ert alveg eins og mamma þín” eða þegar það er gert grín af mér þegar ég er óþarflega nákvæm i bakstrinum og er líkt við pabba.

Þannig að lokum þá segi ég við þá sem finnast desember örlítið erfiðari en aðrir mánuðir; hvort sem við erum að syrgja ástvini eða bara leið yfir að vera í vaktavinnu og að vera ekki með fjölskyldu eða að vera ekki með börnin okkar þessi jólin.

Leyfið ykkur bara að finna allar heimsins tilfinningar því þær eiga rétt á sér. Þetta er bara erfiður mánuður en hann kemur og hann fer og svo tökum við fagnandi á móti 1. janúar. Nýju ári og nýrri byrjun. Svo er það bara þannig að 24. desember er ekki heilög dagsetning, það má halda jólin hvenær sem er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“