Svavar Hávarðsson hefur hafið störf sem fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar. Svavar hefur starfað sem blaðamaður og ritstjóri frá árinu 2006.
Svavar mun meðal annars hafa með höndum ritstjórn og útgáfu fréttablaðs, upplýsingamiðlun og samskipti við fjölmiðla, umsjón með fræðslu og skipulagningu viðburða. Hann tekur við keflinu af Kristínu Ólafsdóttur sem nú gegnir starfi verkefnastjóra erlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu.
Sem blaðamaður í innlendum fréttum á Fréttablaðinu sinnti Svavar skrifum um fjölbreytt efni. Hann hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku árið 2011 fyrir fréttaflutning af mengun frá sorpbrennslum. Svavar söðlaði um árið 2017 og hefur starfað sem ritstjóri Fiskifrétta undanfarin fimm og hálft ár.
Svavar er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur sinnt ýmsum félagsstörfum; sat meðal annars í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands og í ritnefnd Stangaveiðifélags Reykjavíkur.
Þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi
Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun sem sinnir mannúðar- og hjálparstarfi í nafni þjóðkirkjunnar. Hjá Hjálparstarfinu er unnið að fjölbreyttum verkefnum en í starfinu felst þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi, aðstoð við fólk í félagslegri neyð á Íslandi, fjáröflun og fræðsla um gildi þróunarsamvinnu og mannúðar- og mannréttindamál.
Starfsfólk Hjálparstarfsins eru auk Kristínar og Svavars þau Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri, Áslaug Arndal, sem hefur umsjón með skrifstofu, félagsráðgjafarnir Vilborg Oddsdóttir, sem hefur umsjón með innanlandsstarfi, Guðný Helena Guðmundsdóttir, Júlía Margrét Rúnarsdóttir og Lovísa Mjöll Kristjánsdóttir auk Mjallar Þórarinsdóttur sem hefur umsjón með sjálfboðaliðastarfi. Starfskonur Skjólsins, athvarfs fyrir heimilislausar konur, eru þær Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem veitir því forstöðu, Hrönn Hjálmarsdóttir og Una Sigrún Ástvaldsdóttir.