Wales og Íran mættust í fyrsta leik dagsins á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Bæði lið fengu sín færi í fyrri hálfleik en það markverðasta sem gerðist var þegar Ali Gholizadeh setti boltann í mark Wales á 16. mínútu. Það var hins vegar dæmt af með hjálp myndbandsdómgæslu. Rangstaða var réttilega dæmd.
Íran byrjaði seinni hálfleik vel og áttu þeir til að mynda tvö skot í stöng.
Þá þurfti Wayne Hennessey að verja vel í marki Walesverja.
Markvörðurinn var svo heldur betur í eldlínunni þegar um fimm mínútur lifðu leiks. Þá óð hann út í Mehdi Taremi utan vítateigs. Eftir að dómarinn hafði skoðað skjáinn sinn gaf hann Hennessey rautt spjald.
Íran tókst að nýta sér það að vera manni fleiri og skoraði Roozbeh Cheshmi á áttundu mínútu uppbótartímans.
Ramin Rezaejan innsiglaði svo 2-0 sigur Íran á tólftu mínútu uppbótartímans.
Úrslitin þýða að Íran er með þrjú stig en Wales eitt. Í riðlinum eru einnig Bandaríkin og England. Þau hafa leikið einn leik en mætast klukkan 19 í kvöld.
England er með þrjú stig en Bandaríkin eitt.