fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2024
Eyjan

„Það er greinilega búið að láta vinstri grænu svipuna ganga á baki hæstvirts ráðherra“

Eyjan
Fimmtudaginn 24. nóvember 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gerði málefni hælisleitenda að umræðuefni sínu í fyrirspurn til Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.

Í fyrirspurninni segir Sigmundur að bæði Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, og Bjarni hafi viðurkennt að ástand hælisleitendamála hér á landi sé orðið stjórnlaust. „En hver hafa viðbrögðin verið?“ spyr Sigmundur og segir svo að fram að þessu hafi ríkisstjórnin bætt í vandann.

„Nú hefur hæstvirtur forsætisráðherra tilkynnt um áform sín, og að því er virðist hæstvirts félagsmálaráðherra, um að endurskilgreina vandann, að endurskíra hælisleitendur sem erlent, ódýrt vinnuafl. Þetta mun ekki leysa nokkurn skapaðan hlut. Þetta mun auka mjög á þann vanda sem stjórnvöld eiga við að etja á meðan ekki hefur tekist að ná tökum á þeim mikla straumi hælisleitenda sem leitar til Íslands vegna þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér fram að þessu.“

Þá furðar Sigmundur sig á því að Katrín Jakobsdóttir hafi skipað sérstakan vinnuhóp til að fjalla um leiði til að rýmka ákvæði laga er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku. „Hér er um grundvallarstefnubreytingu, eða að minnsta kosti vísbendingu um grundvallarstefnubreytingu, að ræða sem gengur þvert á það sem hin Norðurlöndin hafa verið að gera og líka hin EES-löndin,“ segir hann.

„Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir þessum mikla vanda sem henni hefur ekki tekist að taka á með nokkrum hætti og forsætisráðherra hyggst endurskilgreina vandann og auka hann þar með.“

Að lokum spyr Sigmundur hvort Bjarni sé þáttakandi í þessu ferli. „Samþykkti hann að farið yrði í þessi viðbrögð við ástandinu sem ríkisstjórnin hefur ekki getað brugðist við til þessa?“

Ný skref í átt að þroskaðri vinnumarkaði

Bjarni svarar fyrirspurn Sigmundar og segir að það sé of mikið sagt að segja að ástandið í hælisleitendamálum á Íslandi sé orðið stjórnlaust. „Ef við horfum til dæmis bara á fjölda Úkraínumanna sem sækja til Íslands þá eru þeir hlutfallslega færri á Íslandi en á Norðurlöndunum,“ segir hann.

„Það er hins vegar rétt hjá hæstvirtum þingmanni að skaði hefur verið af því að þingið hafi ekki afgreitt margítrekað endurflutt mál dómsmálaráðherra á undanförnum árum til þess að við gætum betur samræmt löggjöf okkar í hælisleitendamálum því sem á við í nágrannalöndunum.“

Varðandi starfshópinn sem Sigmundur talaði um segist Bjarni telja að það sé löngu tímabært að taka það til endurskoðunar hvernig hægt sé að laða sérfræðinga til landsins sem koma utan EES-svæðisins. „Við höfum öll tól og tæki í höndunum til að stýra því nákvæmlega með hvaða hætti við myndum opna íslenskan vinnumarkað fyrir löndum utan EES-svæðisins,“ segir Bjarni.

Þá segir hann að opinn og sveigjanlegur vinnumarkaður á Íslandi hafi reynst vera algjört bjargræði, áhyggjur við inngöngu í EES hafi reynst „algjörlega innistæðulausar.“ Að lokum segist Bjarni telja að þessi nýi starfshópur sé merki um að verið sé að stíga ný skref í átt að þroskaðri og þróaðri vinnumarkaði hér á landi.

„Búið að láta vinstri grænu svipuna ganga á baki hæstvirts ráðherra“

Sigmundur gerði sér aftur ferð upp í pontu eftir svar Bjarna. Hann furðar sig á því að Bjarni segi að ástandið sé ekki stjórnlaust. „Hæstvirtur fjármálaráðherra byrjar á því að vera ósammála dómsmálaráðherra sínum og sjálfum sér,“ segir hann og skýtur svo rækilega á Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn.

„Það er greinilega búið að láta vinstri grænu svipuna ganga á baki hæstvirts ráðherra — og þó, kannski er þetta bara það sem var að vænta eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins þar sem kom á daginn að stærsti flokkur landsins á Íslandi er þrátt fyrir allt krataflokkur eins og á hinum Norðurlöndunum.“

Sigmundur segist ekki geta tekið undir allar fullyrðingar Bjarna um vinnumarkaðinn á EES-svæðinu en að hann geti þó tekið undir að opin ferð fólks á svæðinu hafi að langsmestu leyti gert Íslandi gagn. „En hér er um að ræða grundvallarstefnubreytingu hvað það varðar og ríkisstjórnin virðist ekki vita hver afleiðingin verður,“ segir Sigmundur og skýtur svo að lokum í allar áttir.

„Rétt eins og hæstvirtur loftslagsráðherra veit ekki hver afleiðingin af loftslagssjóðnum, sem var lofað á ráðstefnu nýverið, verður. Menn vita ekki hverjar verða afleiðingarnar af viðbragðaleysi fram að þessu við skipulagðri glæpastarfsemi. (Forseti hringir.) Hæstvirtur dómsmálaráðherra kemur málinu ekki einu sinni út úr þingflokki Vinstri grænna. (Forseti hringir.) Útlendingamál hæstvirtur dómsmálaráðherra er í uppnámi. Og einkavæðing ríkiseigna (Forseti hringir.) — ég hef líklega ekki tíma til að fara út í það, hæstvirtur forseti.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, svarar þá Sigmundi: „Það er rétt. Það er ekki tími til þess.“

Blandar saman tveimur ólíkum málum

Bjarni svarar þessari ræðu Sigmundar einnig en hann segir Sigmund vera að blanda tveimur ólíkum málum. „Annars vegar er það staðan í hælisleitendamálum og ég er þeirrar skoðunar að þar þurfi að gera úrbætur. Þess vegna liggur fyrir þinginu frumvarp,“ segir Bjarni.

Hann segist vera sammála Sigmundi um að ekki eigi að vera séríslenskar reglur sem geri það ákjósanlegra með einhverjum hætti að sækjast eftir hæli á Íslandi en annars staðar. Einnig segist hann telja að það taki of langan tíma að komast að niðurstöðu í einstaka málum, það skapi sjálfstætt vandamál við afgreiðslu mála.

„En hitt málið, sem er vinnumarkaðurinn á Íslandi, er bara allt annað umræðuefni,“ segir Bjarni svo. „Það er ekkert verið að breyta hælisleitendamálum í vinnumarkaðsmál — við erum ekki að blanda því saman.“

Bjarni segir að það sé einfaldlega orðið tímabært að hægt sé að taka dýpri umræðu um það með hvaða hætti hægt sé að laða sérfræðinga utan EES-svæðisins til landsins. Hann segir skilyrðin fyrir því að fólk utan EES-svæðisins geti komið hingað til dvalar og vinnu séu of þröng. „Það er til dæmis allt of mikið í höndum stéttarfélaganna í landinu að ákveða það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur