Spánn mætti Kosta Ríka í seinni leik dagsins í E-riðli Heimsmeistaramótsins í Katar.
Það er óhætt að segja að Spánverjar hafi þurft að hafa ansi lítið fyrir hlutunum í þessum leik.
Þeir voru búnir að ganga frá leiknum eftir um hálftíma. Dani Olmo kom þeim yfir á 11. mínútu leiksins. Tíu mínútum síðar skoraði Marco Asensio annað markið og tíu mínútum þar á eftir var Ferran Torres búinn að koma Spáni í 3-0. Þannig var staðan í hálfleik.
Torres skoraði sitt annað mark á 54. mínútu eftir klaufaganga í vörn Kosta Ríka.
Veislan hél áfram þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks. Þá skoraði ungstirnið Gavi og kom Spáni í 5-0. Á 90. mínútu bætti Carlos Soler sjötta markinu við.
Alvaro Morata vildi fá að vera með í partíinu og skoraði hann sjöunda markið á annari mínútu uppbótartímans.
Lokatölur urðu 7-0 og Spánverjar senda sterk skilaboð í fyrsta leik, eru með þrjú stig í E-riðli.
Kosta Ríka er með núll stig, líkt og Þýskaland sem tapaði fyrir Japan í dag.