Undrabarnið Jude Bellingham, leikmaður Dortmund, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark fyrir England í gær gegn Íran.
England vann sannfærandi 6-2 sigur á Íran en Bellingham var á meðal markaskorara aðeins 19 ára gamall.
Hann hélt þó að hann væri búinn að missa af tækifærinu að skora sitt fyrsta mark eftir að hafa skallað knöttinn í átt að marki Íran.
Bellingham var viss um að skalli hans væri á leið framhjá markinu en sem betur fer fyrir hann og England endaði boltinn yfir línunni.
,,Ég hélt ég væri búinn að klúðra þessu færi, það tók endalausan tíma fyrir boltann að enda í netinu en sendingin frá Luke Shaw var frábær og ég þurfti bara að koma þessu í markið,“ sagði Bellingham.
,,Ég vildi skora fleiri mörk fyrir Dortmund og England á síðasta ári og komast í réttar stöður, þetta var góður dagur fyrir okkur.“