Argentína og Sádi-Arabía mættust í fyrsta leik C-riðils Heimsmeistaramótsins í Katar í dag.
Útlitið var ansi gott fyrir Argentínu þegra liðið fékk víti snemma leiks. Lionel Messi fór á punktinn og skoraði af öryggi. Lærisveinar Lionel Scaloni komnir yfir eftir tíu mínútna leik.
Eftir hálftíma leik hélt Lautaro Martinez að hann hefði komið Argentínu í 2-0. Mark hans var hins vegar dæmt af með hjálp myndbandsdómgæslu og nýrrar rangstöðutækni. Um afar tæpa rangstöðu var að ræða.
Sádi-Arabía kom með látum inn í seinni hálfleik. Á 48. mínútu jafnaði Saleh Al-Shehri fyrir þá og fimm mínútum síðar voru þeir komnir yfir með frábæru marki Salem Al-Dawsari.
Argentínumenn reyndu hvað þeir gátu að jafna en allt kom fyrir ekki. Sádar börðust hetjulega síðustu mínútur leiksins.
Lokatölur 2-1 fyrir Sádi-Arabíu. Liðið er því með þrjú stig en Argentína ekkert.
Í þessum riðli eru einnig Pólland og Mexíkó, sem mætast klukkan 16 að íslenskum tíma.