Þetta kom meðal annars berlega í ljós þegar hann sagði að Úkraína hafi haft í hótunum um að verða kjarnorkuveldi og að það sé ástæðan fyrir innrás Rússa í landið. VG skýrir frá þessu.
Fram kemur að Medvedev hafi skrifað á Telegram að Úkraínumenn muni glaðir beita kjarnorkuvopnum gegn Rússum og eigin landsmönnum. Þeir hafi hótað að hrinda kjarnorkuvopnaáætlun sinni af stað á nýjan leik og það sé ein af ástæðunum fyrir „hinni sérstöku hernaðaraðgerð“.
Karen-Anna Eggen, sérfræðingur hjá norska varnarmálaskólanum, sagði í samtali við VG að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Rússar setji ásakanir af þessu tagi fram. Þetta hafi heyrst áður, til dæmis frá Sergey Lavrov, utanríkisráðherra, og þetta sé meðal þess sem sé notað til að réttlæta innrásina. Hún sagði að Medvedev sé einn margra sem hafi orðið sífellt öfgafyllri. „Þetta fær Pútín næstum því til að virðast vera hófsamur,“ sagði hún.