Ekki er langt síðan Rússar neyddust til að hörfa frá borginni Kherson, í samnefndu héraði, og yfir ána Dnipro. Hún er núna náttúruleg varnarlína þeirra. Peter Viggo Jakobsen, sérfræðingur við danska varnarmálaskólann, sagði í samtali við Ekstra Bladet að það sé mjög mikilvægt fyrir Rússa að halda þessari varnarlínu því ef Úkraínumönnum tekst að brjótast í gegnum hana sé leiðin meira eða minna opin fyrir þá til Krímskaga.
Ef þessi varnarlína verður rofin telur hann að Pútín geti neyðst til að grípa til kjarnorkuvopna. „Ég hef alltaf sagt að ef Pútín getur ekki haldið varnarlínunni við ána, þá geti hann vel tekið upp á því að nota kjarnorkuvopn og það tel ég að eigi enn við. Við erum að ræða um vígvallarkjarnorkuvopn til að reyna að fá Úkraínu og Vesturlönd til að stoppa,“ sagði hann.
Hann benti á að Krímskagi sé mjög mikilvægur fyrir Pútín og að það myndi vera mikill ósigur fyrir hann ef Úkraínumenn ná skaganum á sitt vald. „Ef Krím verður í hættu, þá er það þar sem ég sé mestu líkurnar á að kjarnorkuvopnum verði beitt. Hann hefur margoft hótað því,“ sagði Jakbosen.