David de Gea, markvörður Manchester United, var steinhissa er hann fékk skilaboð frá forseta spænska knattspyrnusambandsins í vikunni.
Þetta segir blaðamaðurinn Jose Alvarez en hann ræddi málið í samtali við El Chiringuito.
De Gea var ekki valinn í landsliðshóp Spánar fyrir HM í Katar en Luis Enrique, landsliðsþjálfari, treystir ekki á hans þjónustu.
De Gea hafði aldrei gefið út að hann væri hættur með landsliðinu en af einhverjum ástæðum var það hugsun spænska sambandsins.
,,David, ég er glaður með að þú hafir loksins tekið ákvörðun sem þú hefur hugsað um lengi. Mér hefur verið tjáð að þú sért að kveðja landsliðið,“ voru skilaboð Luis Rubiales, forseta sambandsins til De Gea.
De Gea svaraði mjög skýrt og hafði ekki hugmynd um hvað Rubiales væri að tala um en hann gaf kost á sér á HM í Katar og hefur ekki tekið ákvörðun um framhaldið.
,,Stjórinn tjáði mér að hann ætlaði ekki að treysta á mig en ég hef aldrei neitað landsliðinu og það er ekki planið, ef ég er kallaður í liðið,“ var svar De Gea.
De Gea á að baki 45 landsleiki fyrir Spán en lék síðast fyrir liðið í Þjóðadeildinni fyrir tveimur árum.