Wayne Rooney, goðsögn Manchester United, var gagnrýndur af fyrrum liðsfélaga sínum Cristiano Ronaldo í vikunni.
Ronaldo virtist kalla Rooney ‘rottu’ í viðtali við Piers Morgan en sá síðarnefndi hefur gagnrýnt hegðun portúgalans á leiktíðinni.
Nú hefur Rooney í raun kallað eftir frekari ummælum er hann talaði um Lionel Messi sem besta fótboltamann sögunnar.
Eins og flestir vita eru Ronaldo og Messi taldir vera tveir af bestu leikmönnum allra tíma og er rígurinn þar á milli ansi mikill.
,,Allir eru með mismunandi skoðanir þegar kemur að Messi og Ronaldo en ég hef margoft sagt að Messi sé sá besti,“ sagði Rooney.
,,Ég hef horft á mörg myndbönd af Diego Maradona sem var svipaður leikmaður en Messi var betri en hann.“
,,Hann er með allt saman – hann stýrir leikjunum með boltatækni, stoðsendingum á meðan Ronaldo er meiri markaskorari.“
,,Það væri frábær saga fyrir fótboltann ef annað hvort Messi eða Ronaldo myndu vinna HM.“