fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Pressan

Kynlífsþrælarnir í Norður-Kóreu – Stúlkur teknar barnungar frá foreldrum til að þóknast öllum óskum ráðamanna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 18. nóvember 2022 22:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir að vera lokaðasta land í heimi er sitthvað vitað um Norður-Kóreu. Eitt af því er tilvist Kippumjo sem má kalla unaðs- eða skemmtisveitina.

En í raun er um að ræða kynlífsþræla. 

Kippumjo er hópur um 2000 kvenna sem eru sérstaklega valdar til að gleðja æðstu yfirmenn kommúnistaflokksins svo og auðvitað sjálfan einræðisherrann, Kim Jong-un. 

Hávaxnar og fríðar

Það var Kim Il-sung, afi Kim Jong-un, og stofnandi Norður-Kóreu, sem fyrst setti saman Kippumjo hópinn. Sá er eilífðar forseti þrátt fyrir að hafa gefið upp öndina árið 1994.

Kim Jong-il notaði nakta stúlku sem fótaskemil.

Sonur hans og næsti einvaldur, Kim Jong-il, naut kvennahópsins til fullnustu enda gleðimaður mikill.

Í upphafi valdaferils síns sýndi þriðji einfaldur Kim ættarinnar, Kim Jong-un, aftur á móti lítinn áhuga á að láta sinna nýliðun í Kippumjo. Það er vitað að sukk og ólifnaður Kim Jong-il var slíkur að jafnvel syni hans ofbauð auk þess sem talið er að ungi einræðisherrann hafi verið afar ástfanginn af  sinni fallegu eiginkonu. Fyrstu árin í það minnsta. 

En það er augljóslega breytt því Kim Jong-un setti mikinn kraft í endurnýjun Kippumjo hópsins árið 2018. 

Allt niður í 13 ára

Flokksgæðingar um allt land eru látnir velja stúlkur á sínu yfirráðasvæði til að senda til höfuðborgarinnar Pyongyang. Þær þurfa að vera hávaxnar, fríðar, vel vaxnar og ekki er verra ef þær búa yfir hæfileikum á einhverju sviðum skemmtana. 

Oftast eru þær um 16 ára aldurinn eða stúlkur allt niður í 13 ára hafa verið teknar af foreldrum sínum til að gleðja hátt setta flokksmenn, sem flestir eru í kringum sextugsaldurinn. 

Þeir útvöldu fá að velja sér stúlkur. Yfirleitt er um aldraða flokksgæðinga að ræða.

Það þykir heiður fyrir foreldra að dóttir þeirra sé valin til að ,,skemmta” leiðtoganum og fylgifiskum hans en auðvitað fylgir því mikil sorg að sjá á eftir barni sínu. 

Bæði vegna þess að foreldrarnir vita bæði hvað til er ætlast af Kippumjo stúlkunum en einnig vegna þess að foreldrarnir  munu aldrei sjá dóttur sína aftur. Sumir reyna að múta héraðsstjórum til að taka ekki dætur sínar en fæstir hafa efni á því og sé viðkomandi flokksgæðingur ekki mútuþægur er hætta á að foreldrarnir verði sendir í þrælkunarbúðir. 

En það sem hefur hvað mest áhrif er að foreldrarnir vita að dóttir þeirra mun fá fatnað, heilbrigðisþjónustu, þak yfir höfuðið og það sem mestu máli skiptir: Mat. 

Eina prósentið

Norður Kórea er fátækt land og lifa 60% þeirra 24 milljóna íbúa, sem landið byggir við hungurmörk. Tæp 30% íbúa ná að borða daglega þótt sú næring sé ekki upp á marga fiska. 

Börn að leita róta eða jafnvel skordýra til að borða.

Hver hungursneyðin á fætur annarri hefur plagað þjóðina, sérstaklega síðustu 30 árin eftir að Sovétríkin hrundu og matarsendingar þaðan stöðvuðust.  

Aðeins 10% íbúa landsins búa í höfuðborginni Pyongyang, og þá aðeins þeir sem flokkurinn hefur samþykkt. Öðrum íbúum landsins er bannað að búa þar eða jafnvel stíga fæti inn í borgina. 

Af þessum 10% sem búa í höfuðborginni eru ef til vill 1-2% sem lifa hátt, jafnvel á vestrænan mælikvarða. Um er að ræða hirðina í kringum einræðisherrann Kim Jong-un, næstum allt karlmenn,  sem fá allt sem hugurinn girnist. 

Líka barnungar stúlkur.

Læra að ,,gleðja“

Þegar að stúlkurnar koma til Pyongyang er kannað hvort þær séu ekki örugglega hreinar meyjar og að hvergi sé að finna á þeim ,,galla” á við fæðingarbletti eða slíkt. Þeim er kennd förðun og snyrting en ekki síst hvernig ,,gleðja” skuli karlmenn. 

Síðan hefst flokkunin. Þær sem hafa góð rödd eru settar í sönghópa, aðrar í danshópa eða skikkaðar til annarra skemmtana fyrir ráðamenn. Það eru þær heppnu. 

Stúlkurnar metna af Kim Jong-il líkt og búfénaður.

Flokksgæðingar fá síðan að skoða nýjustu ,,sendinguna” og velja sér stúlkur til að taka með sér heim.

Æðstu ráðamenn fá að velja fyrst. Þær stúlkur eru kallaðar ,,þernur” en eru lítið annað en kynlífsþrælar. 

Stúlkurnar vita mæta vel að hlýði þær ekki bíða þeirra þrælkunarbúðir. Aðeins örfáum Kippumjo stúlkum hefur tekist að flýja landið og segja sögu sína sem einkennist af lítilsvirðingu og kynferðislegri misnotkun.

En þær fá reglulega að borða og það er það sem öllu skiptir. 

Þær mega engu neita og í viðtali við Suður-Kóreska sjónvarpsstöð sagði ein þeirra, sem tókst að flýja, að reglulega hafi hún verið vakin að nóttu til, neytt í hana áfengi og eiturlyfjum áður en hún var send inn til ,,eiganda“ síns.

Stundum til að dansa og syngja en oftar en ekki til kynlífsiðkana og var oft um hópkynlíf að ræða. Hún var einnig oft ,,lánuð“ félögum húsbónda síns. 

Fá aldrei að fara heim

Þeim fallegustu er haldið til haga fyrir sjálfan Kim Jon-un , líkt og gert var fyrir föður hans og afa. Einn flóttamanna frá Norður Kóreu fékk þann sjaldgæfa heiður að vera boðið í veislu hjá Kim Jong-il, föður núverandi einræðisherra, og hafði hann ljóta sögu að segja.

Kim Jong-il hafði eina stúlkuna á fjórum fótum sem fótaskemil, tvær þurrkuðu af honum svitann og ein mataði einræðisherrann. Enn aðrar dönsuðu, sumar báru fram mat og drykk og fjórar höfðu verið skikkaðar í að leika við hund alvaldsins. 

Allar voru þær naktar.

Gestinum boðið að velja sér eina eða fleiri til skemmtunar. Hann afþakkaði. 

Þrátt fyrir að greiða það dýru verði getur það verið freistandi fyrir foreldra að koma dætrum út nístandi fátæktinni og í höfuðborgina.

Yfirleitt eru stúlkurnar tíu ár í Kippumjo og þá skikkaðar í hjónaband með flokksmönnum. Hafa þær ekkert með makaval sitt að segja.  

Það er dauðasök fyrir þær að leita uppi fjölskyldur sínar eða jafnvel yfirgefa borgina.

Þær vita of mikið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Opnuðu brúðkaupsgjöfina 9 árum eftir brúðkaupið – Lásu kortið og áttuðu sig á skelfilegum mistökum sínum

Opnuðu brúðkaupsgjöfina 9 árum eftir brúðkaupið – Lásu kortið og áttuðu sig á skelfilegum mistökum sínum
Pressan
Í gær

Gættu að hitastiginu í svefnherberginu – Ekki hafa of kalt í því

Gættu að hitastiginu í svefnherberginu – Ekki hafa of kalt í því
Pressan
Fyrir 4 dögum

Og íþróttamaður ársins er – – – Vladímír Pútín!

Og íþróttamaður ársins er – – – Vladímír Pútín!
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þetta eru vinsælustu þáttaraðirnar á Netflix frá upphafi

Þetta eru vinsælustu þáttaraðirnar á Netflix frá upphafi
Pressan
Fyrir 5 dögum

Múslímskur prédikari í Danmörku hleypir illu blóði í Dani – „Múslimar eiga ekki að taka þátt í hátíðum vantrúaðra eins og jólum“

Múslímskur prédikari í Danmörku hleypir illu blóði í Dani – „Múslimar eiga ekki að taka þátt í hátíðum vantrúaðra eins og jólum“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Pitsusendill stakk viðskiptavin – Var ósátt við að fá aðeins 300 kr í þjórfé

Pitsusendill stakk viðskiptavin – Var ósátt við að fá aðeins 300 kr í þjórfé