Gary Neville, goðsögn Manchester United, telur að Cristiano Ronaldo hafi engan áhuga á því að spila aftur fyrir félagið.
Ronaldo hefur gert allt vitlaust síðustu daga eftir að hafa mætt í viðtal hjá Piers Morgan þar sem hann skaut harkalega á félagið sem og stjóra liðsins, Erik ten Hag.
Ronaldo segist hafa fengið litla virðingu eftir komu Ten Hag í sumar og viðurkennir að hafa reynt að komast burt í sumarglugganum.
Neville telur að þetta séu endalok Ronaldo hjá Man Utd og að hann vilji ekki klæðast rauðu treyjunni aftur í framtíðinni.
,,Ég er ekki á því máli að Ronaldo vilji endurkomu. Hann hefði ekki farið í þetta viðtal ef það væri hans vilji,“ sagði Neville.
,,Hann vissi að þetta viðtal myndi gefa fjölmiðlum fyrirsagnir og að ferill hans hjá Manchester United væri á enda. Ég velti því fyrir mér hvað Man Utd er að gera því þeir vita að þeir þurfa að rifta samningi Cristiano, annars eru þeir með leikmann í sínum röðum sem getur alltaf gagnrýnt félagið.“
,,Cristiano vill það örugglega líka en sambandið þurfti ekki að enda svona.“