Manchester United hefur hafið ferli, þar sem ákveðið verður hvernig á að bregðast við viðtali sem Cristiano Ronaldo fór í hjá Piers Morgan.
Viðtalið þykir afar umdeilt og hefur tekið yfir netmiðla undanfarna viku eða svo.
Þar fer Ronaldo ófögrum orðum um félag sitt, United, þar á meðal knattspyrnustjórann Erik ten Hag. Hann segir þá aðila innan félagsins hafa reynt að bola sér burt og að United hafi ekki tekið skref fram á við frá því hann yfirgaf það fyrsta árið 2009.
„Manchester United hefur þennan morguninn hafið viðeigandi ferli í kjölfar viðtals Cristiano Ronaldo nýlega. Við munum ekki tjá okkur meira fyrr en niðurstaða er komin í málið,“ segir í yfirlýsingu félagsins.