Þrír ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn þeirra reyndist vera sviptur ökuréttindum og var um ítrekað brot að ræða hjá honum hvað varðar að aka sviptur ökuréttindum.
Nokkrir ökumenn voru kærðir fyrir margvísleg umferðarlagabrot.
Á tíunda tímanum varð umferðaróhapp á gatnamótum í Kópavogi. Engin slys urðu á fólki en annar ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið gegn rauðu ljósi.
Í Garðabæ var kona stöðvuð þegar hún var á leið út úr verslun á fimmta tímanum í nótt með vörur sem hún hafði ekki greitt fyrir.
Í Miðborginni var 17 ára piltur stöðvaður þegar hann var að yfirgefa verslun með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir. Forráðamanni hans var gert viðvart um málið sem og barnaverndaryfirvöldum.
Á áttunda tímanum kviknaði í bekk við Álftamýrarskóla. Ungir krakkar voru sagðir hafa verið að kveikja eld í ruslafötu við bekkinn og læsti eldurinn sig síðan í bekkinn. Borgarar komu með vatn í fötu og slökktu eldinn að mestu en slökkvilið sá um að ljúka verkinu.
Á öðrum tímanum í nótt var tilkynnt um eld í ruslatunnu við sjúkrahús í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Lögreglumenn slökktu eldinn með handslökkvitæki.