Joan Laporta, forseti Barcelona, hefur staðfest það að félagið hafi reynt að fá sóknarmanninn Luis Diaz í janúar fyrr á þessu ári.
Diaz spilar með Liverpool í dag en hann kom til félagsins frá Porto og hefur byrjað nokkuð vel á Englandi.
Barcelona skoðaði það ítarlega að fá Diaz í sínar raðir en fjárhagsstaða liðsins kom í veg fyrir skiptin á þeim tíma.
,,Á þessum tímapunkti vorum við nýkomnir til félagsins en við vorum að íhuga að fá Diaz inn,“ sagði Laporta.
,,Við vorum þó í fjárhagslegri stöðu sem við þurftum að leysa. Liverpool var einfaldlega á undan okkur í baráttunni.“
,,Hann er frábær leikmaður og hann á heima hjá liði eins og Liverpool og ég vil ekki tjá mig meira um það. Við höfðum áhuga á þessum tíma. Við ræddum við umboðsmann hans en þeir voru nú þegar komnir langt á veg með Liverpool.“