Það eru margir áratugir síðan vísindamenn uppgötvuðu að undir ísnum á Suðurskautinu er mikið vatn, eiginlega falin stöðuvötn. Lengi var talið að þessi vötn væru aðskilin en síðan byrjaði fólk að hugleiða hvort einhverskonar tenging gæti verið á milli þeirra.
Nú hefur þessum vangaveltum verið svarað. Með því að nota flugratsjár og reiknilíkön tókst vísindamönnum að kortleggja hvað gerist undir ísnum.
Niðurstaðan er að stórt net áa er undir ísnum, þær tengja vötnin saman. Eru þær samtals mörg þúsund kílómetrar að lengd.
Martin Siegert, hjá Imperial College í Lundúnum, segir í fréttatilkynningu frá skólanum að nú séum við að byrja að skilja þau kerfi sem eru undir ísnum.
Ein áin er 460 km að lengd.
Vísindamenn telja hugsanlegt að þessar leyndu ár geti hjálpað okkur að finna svör við mikilvægum spurningum varðandi loftslagsmálin. Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Fram kemur að vonast sé til að árnar geti varpað ljósi á hvernig ísinn á Suðurskautinu bráðnar og hversu hratt hann bráðnar.
Það er munur á hvernig ísinn bráðnar á Suðurskautinu og á norðurheimsskautasvæðinu. Á sumrin getur hitinn á Grænlandsjökli orðið svo hár að yfirborð hans bráðnar en slíkt gerist ekki á Suðurskautinu.