Íslenska karlalandsliðið er komið í úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins eftir sigur á Litháen í vítapsyrnukeppni í undanúrslitum í kvöld.
Ísland byrjaði leikinn mun betur og stjórnaði ferðinni. Litháar tóku hins vegar við sér eftir um stundarfjórðung og gerðu sig líklegri framar á vellinum.
Á 27. mínútu leiksins átti Jóhann Berg Guðmundsson, sem var að snúa aftur í lið Íslands í dag eftir meira en árs fjarveru, gott færi eftir góð tilþrif Jóns Dags Þorsteinssonar. Aðeins mínútu síðar fékk Ísak Bergmann Jóhannesson færi eftir undirbúning Þóris Jóhanns Helgasonar.
Leikurinn hafði tekið mikið við sér á þessum tímapunkti. Á 30. mínútu voru varnarmenn Íslands sofandi, Valgeir Lunddal Friðriksson gerði mistök og heimamenn fengu dauðafæri. Rúnar Alex Rúnarsson varði hins vegar meistaralega í markinu í stöðunni einn á einn.
Skömmu síðar fékk Hákon Arnar Haraldsson dauðafæri eftir frábæran bolta Davíðs Kristjáns Ólafssonar. Leikmaðurinn ungi skallaði hins vegar yfir markið.
Staðan eftir ágætis fyrri hálfleik var markalaus.
Seinni hálfleikur var virkilega gæðalítill og bragðdaufur.
Það markverðasta sem gerðist var þegar Hörður Björgvin Magnússon fékk sitt seinna gula spjald fyrir að kasta boltanum í andstæðing, afar klaufalegt.
Lokatölur markalaust jafntefli og því gripið til vítaspyrnukeppni.
Þar skoraði Ísland úr fleiri spyrnum og mætir liðið Lettum í úrslitaleik á laugardag.