Steinunn Árnadóttir, organisti í Borgarneskirkju, og fleiri dýravinir fögnuðu sigri í gær er bóndi í Bæjarsveit í Borgarfirði, sem legið hefur undir ámæli um dýraníð, var vörslusviptur. Um eittleytið í gær streymdu lögreglubílar að bænum og fréttirnar bárust hratt um sveitina. Steinunn og fleira fólk fór á vettvang. Hún staðfestir í samtali við DV að lögregla og MAST hafi stýrt aðgerðunum á sveitabænum.
„Þessi bóndi var vörslusviptur en inni í húsum voru 146 nautgripir sem höfðu ekki sést úti undanfarin ár. Síðan voru aðrir nautgripir sem voru úti en voru illa haldnir, höfðu verið settir of seint út í haust og þoldu ekki þennan kulda. Það er verið að fjarlægja þessa gripi,“ segir Steinunn.
Segir hún að fólk í sveitinini hafi vitað af aðgerðunum í gær vegna umferðar lögreglubíla, hafi fólk strax áttað sig á því hvað var á seyði. Einhverjir fóru á vettvang og Steinunn tók meðfylgjandi mynd frá aðgerðunum. Hún skrifaði á Facebook um málið:
„Og þá hefjast aðgerðir!
146 nautgripir losna úr prísund sinni!
Margra ára innilokun er lokið!
29 nautgripir þurfa ekki lengur að berjast við að halda lífi í kulda og vosbúð!“