„Það er bókstaflega ekkert að frétta núna, engar frekari fréttir en þær sem komu í gær,“ segir séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, faðir Friðfinns Freys Kristinssonar sem lögregla lýsti eftir í gær.
Leit hjálparsveita og þyrlu Landhelgisgæslunnar að Friðfinni stóð yfir í gær, meðal annars í Grafarvogi og Kópavogi. Leitin stóð fram á kvöld, að sögn Kristins, en skilaði engu.
Kristinn er ánægður með framlag lögreglu og hjálparsveita í málinu og viðmót þessara aðila við sig. „Já, þeir hafa staðið sig mjög vel og ég er mjög þakklátur fyrir þeirra vinnu og björgunarsveitanna, ég er mjög þakklátur fyrir þeirra framlag.“
Aðspurður um framhald leitar segir hann: „Í gærkvöld skildist mér að þeir ætluðu að halda áfram en ég hef engar fréttir fengið í dag, en ég held að þeir vinni að málinu áfram í dag.“
Kristinn segist síðast hafa hitt son sinn á fimmtudaginn. Segir hann það hafa komið öllum í opna skjöldu að Friðfinnur skyldi týnast. „Það var ekkert óvenjulegt í gangi. Þetta kom öllum afskaplega á óvart því hann var búinn að standa sig gríðarlega vel og maður bara skilur þetta ekki.“
Kristinn segir son sinn hafa átt í fíkniefnavanda en hann hafi verið ekki verið í neyslu undanfarið og hafi verið kominn á beinu brauina. „Já, hann átti í fíknivanda en það hafði gengið vel undanfarið. En svona er þessi fíkniefnaheimur, hann er viðbjóður.“
Kristinn segir að ættingjar Friðfinns séu í góðu sambandi og þau styðji hvert annað á þessum erfiðu tímum. „Við erum í góðum tengslum og styðjum hvert annað. Við höfum styrk hvert af öðru og það er mikil huggun í því.“