Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og stjórnandi á Twitter, hefur ákveðið að bjóða Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra í ferð til Grikklands. Ekki er um að ræða skemmtiferð þar sem Haraldur vill fara með Jóni til að skoða aðstöðu flóttafólks þar í landi.
Í færslu sem Haraldur birti á Twitter-síðu sinni segist hann vera tilbúinn að borga bæði flugmiða og gistingu fyrir Jón ef hann kemur með sér.
Ég skal borga flugmiða og gistingu fyrir Jón Gunnarsson ef hann kemur með mér að skoða aðstöðu flóttafólks í Grikklandi.
— Halli (@iamharaldur) November 10, 2022
Ástæðuna fyrir þessu boði má rekja til þeirrar miklu umræðu sem hefur verið að undanförnu um brottvísanir á flóttafólki til Grikklands. Umræðan hófst þegar 15 manns var vísað úr landi fyrir viku síðan, til stóð að vísa 28 manns en 13 fundust ekki. Þá vakti meðferð lögreglunnar á Hussein Hussein, fötluðum manni sem vísað var úr landi, mikla athygli og ólgu meðal fólks.
Aðgerðir stjórnvalda hafa verið harðlega gagnrýndar en spjótunum hefur hvað mest verið beint að dómsmálaráðherra þar sem hans ráðuneyti sér um þennan málaflokk.