Síðdegis í dag verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur krafa héraðssaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þeim Sindra Snæ Birgissyni og Ísidór Nathanssyni en þeir eru grunaðir um áform um hryðjuverk og stórfelld vopnalagabrot.
Núna liggur fyrir geðmat á sakborningunum og að sögn Sveins Andra Sveinssonar, verjanda Sindra Snæs, telur geðlæknir að ekki stafi hætta af honum. Orðrétt segir í geðmatinu:
„Ekki verður séð að geðrænt heilbrigði sé þannig að hætta stafi af fyrir hann sjálfan eða aðra einstaklinga eða hópa.“
Gengur þetta gegn gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.
„Almennt eru dómarar ekki mikið að breyta um mat á almannahættu frá einum gæsluvarðhaldsúrskurði til annars. Hins vegar er staðan þessi að þegar síðasti úrskurður var kveðinn upp þá lá fyrir ákveðin áhættugreining unnin eftir svokölluðu TRAP-18 hættugreiningarkerfi. Einn faktorinn í því er geðrænt ástand. Nú hefur komið ný breyta inn í mat dómarans í dag, sem er geðmat einhvers reyndasta geðlæknis landsins þegar kemur að sakamálum. Hans niðurstaða ætti að öllu óbreyttu að leiða til þess að dómur endurskoði forsendu gæsluvarðhalds út frá því að sakborningar séu ekki hættulegir,“ segir Sveinn Andri í samtali við DV.
Málin verða tekin fyrir á fjórða tímanum síðdegis. Ekki er ljóst hvenær úrskurður Héraðsdóms liggur fyrir. Núgildandi gæsluvarðhald yfir tvímenningunum rennur út kl. 16 í dag.