Cristiano Ronaldo var nálægt því að hætta í knattspyrnu er hann var leikmaður í akademíu Sporting í heimalandinu, Portúgal, sökum eineltis. Þetta kemur fram í nýrri bók: Messi vs Ronaldo: One Rivalry, Two GOATs, and the Era That Remade the World’s Game.
Aðeins 18 ára gamall fór Ronaldo frá Sporting til Manchester United á tólf milljónir punda. Líf hans hefði þó getað þróast allt öðruvísi.
Samkvæmt bókinni vildi Ronaldo um tíma hætta í fótbolta, er hann var í akademíu Sporting, sökum eineltis.
Þar kemur fram að aðrir strákar í liði hans hafi gert grín að hreimi leikmannsins. Hann var uppalinn á Madeira en Sporting er staðsett í höfuðborginni, Lissabon.
Þá kemur fram að Ronaldo hafi grátið alla daga þar sem hann saknaði fjölskyldu sinnar og vina, en hann var aðeins tólf ára gamall þegar hann fór til Sporting.
Í bókinni segir einnig að Ronaldo hafi átt erfitt með að hafa stjórn á tilfinningum sínum. Varð það til þess að hann slóst oft við aðra stráka í liðinu.