Ekkert er til í þeim sögum sem verið hafa á kreiki um að Kórdrengir ætli að hætta að taka þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu. Þetta staðfestir Logi Már Hermannsson formaður Kórdrengja í samtali við 433.is.
Kórdrengir eru án þjálfara eftir að Davíð Smári Lamude ákvað að láta af störfum og tók við Vestra. Bæði lið leika í Lengjudeildinni.
Uppgangur Kórdrengja hefur vakið mikla athygli en félagið fór upp um þrjár deildir á þremur árum. Félagið er á leið inn í sitt þriðja tímabil í næst efstu deild.
„Ég get sagt það að Kórdrengir mæta til leiks á næsta ári og Ægir er ekki að fara upp í Lengjudeildina,“ segir Logi Már í samtali við 433.is.
Sú saga hafði flogið hátt að Kórdrengir væru að skoða það að leggja niður störf og þá hefði Ægir úr 2 deildinni farið upp í Lengjudeildina í þeirra stað. Af því verður ekki eins og Logi stafeðstir.
Logi segir að unnið sé í þjálfaramálum félagsins en ekki sé tímabært að gefa upp meira en það.