Sverrir Þór Sverrisson, Sveppi, lýsir því í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark hversu magnað það hafi verið fyrir hann að ferðast með knattspyrnugoðsögninni Eiði Smára Guðjohnsen á áfangastaði leikmannsins á knattspyrnuferlinum, er þeir félagar gerðu sjónvarpsþættina Gudjohnsen um feril Eiðs fyrir Símann.
Eiður átti magnaðan feril sem leikmaður. Hann er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Chelsea og Barcelona.
Sveppi segir frá því þegar þeir félagar heimsóttu Kína í þættinum, en þar lék Eiður með Shijiazhuang Ever Bright á seinni stigum ferilsins.
„Þrátt fyrir það að vita hversu stór hann var og upplifað það með honum þá kom það mér samt á óvart, að fara með honum á þessa staði svona eftir á að hyggja,“ segir Sveppi, en hann og Eiður eru góðir félagar.
„Þegar við fórum til Kína, hann gat ekki farið út úr bílnum því það var svo mikið af fólki að öskra á hann.
Við töluðum við formann aðdáendaklúbbs þessa liðs þá spurðist það út að Eiður væri að koma. Svo þegar við komum er bara fullt af fólki á flugvellinum.“
Eiður, Sveppi og tökuliðið áttu erfitt með að komast í burtu fyrir fólki.
„Svo erum við komnir inn í bíl og það er verið að reyna að keyra í burtu en það er bara troðist inn í bílinn. Þetta var bara eins og þetta væri Justin Bieber.
Þetta var mjög sérstakt, því ég veit hvað Eiður er mikill vitleysingur og alveg sama um allt svona kjaftæði.“
Sveppi segist hafa tekið eftir því er þeir tóku upp þáttinn að Eiður sé mjög vinsæll á þeim stöðum sem hann kom við á á ferlinum.
„Hann hefur alls staðar verið vel liðinn. Hann er ennþá Chelsea-goðsögn.“