FH gekk í kvöld frá ráðningu á Heimi Guðjónssyni sem aðalþjálfara karlaliðs félagsins í Bestu deildinni. Heimir er mætur á heimaslóðir en honum var vikið úr starfi haustið 2017. Heimir hefur þjálfað HB í Færeyjum og Val frá því að FH rak hann.
Hann varð meistari í Færeyjum og Íslandsmeistari með Val en var rekinn úr starfi á Hlíðarenda í sumar.
Sigurvin Ólafsson sem tók við FH undir lok móts þegar Eiður Smári Guðjohnsen steig til hliðar verður þjálfari liðsins með Heimi, þeir hafa áður unnið saman í Kaplakrika þegar Heimir var aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar og Sigurvin var leikmaður.
Heimir yfirgaf FH fyrir fimm árum síðan og tók að sér starf hjá HB í Færeyjum og síðar hjá Val en er nú kominn aftur heim.
,,Þetta er mjög góð tilfinning, eins og sást á þessum fundi þá voru móttökurnar geggjaðar og maður fer auðmjúkur inn í þetta starf. Ég hlakka til að takast á við starfið,“ sagði Heimir.
,,Ég held að eins og allir vita þá gekk þetta ekki eins og menn vildu í sumar og liðið rétt bjargaði sér frá falli. Við þurfum að byrja 1. desember og búa til góðan æfingakúltúr þar sem menn eru að gefa allt í þetta.“
,,Auðvitað er það alltaf þannig, ég var 18 ár í FH og enda í 3. stæti árið 2017 og maður vildi ekki enda þetta svona en það tók mig ekki langan tíma að jafna mig á þessu, Lífið er alltof stutt til að vera að eyða því í einhverja fýlu.“
Nánar er rætt við Heimi hér fyrir neðan.