Phil Foden, leikmaður Manchester City, var á dögunum spurður út í hvað væri það erfiðasta við að vera atvinnumaður í knattspyrnu á hans aldri.
Foden er aðeins 22 ára gamall en hefur þó verið fastamaður í liði Englandsmeistara City undanfarin ár.
„Það er svo mikið í gangi þarna úti þegar þú ert ungur knattspyrnumaður. Það erfiðasta er að fara snemma í háttinn og að vera klár í að æfa næsta dag þegar það eru truflanir út um allt. Það er þá sem áræðnin kemur inn,“ segir Foden.
Hann var einnig spurður út í það hvort hann eyddi miklum tíma á samfélagsmiðlum.
„Mér finnst samfélagsmiðlar leiðinlegir. Það er of mikið af neikvæðu dóti þar, mikið af fólki sem veit ekkert um fótbolta. Ég hunsa það bara. Þeir eru ekki fyrir mig.“
Foden er enskur landsliðsmaður einnig, en liðið hefur leik á Heimsmeistaramótinu í Katar síðar í mánuðinum.