fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Pressan

Skólaferðalagið átti að vera ein stór gleði – Varð eins og ein stór lifandi martröð

Pressan
Laugardaginn 16. mars 2024 22:00

Natalee Holloway.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Woohoo, Arúba!“ hrópaði hin 18 ára Natalee á meðan hún hékk hálf út um gluggann á gráu Hondunni og veifaði handleggjunum. „Eins gott að hún fékk far heim,“ hugsaði Jessica Caoila, vinkona hennar, þar sem hún stóð í röð við skyndibitastað.

Daginn eftir var brottför frá Arúba til Alabama. Skólasystkinin voru í góðu skapi en það fór kliður um hópinn þegar þau áttuðu sig á að Natalee var ekki komin. Það sem átti að vera frábær ferð, ein stór gleði, breyttist í stóra, lifandi martröð.

Dans og toppeinkunnir

Árið 1986 eignuðust Dave og Elizabeth Holloway fyrsta barnið sitt. Þetta var stúlka sem fékk nafnið Natalee. Tveimur árum síðar bættist Matthew við fjölskylduna.

Fjölskyldan bjó í Memphis í Tennessee en þegar Dave og Elizabeth skildu 1993 fluttu börnin með móður sinni til Mountain Brook í Alabama.

Þar giftist Elizabeth kaupsýslumanninum George Twitty.

Natalee hóf nám í Mountain Brook menntaskólanum þegar hún hafði aldur til. Hún var góður dansari og félagi í samtökunum National Honor Society. Draumur hennar var að læra læknisfræði.

„Hún fékk toppeinkunnir og með mikilli vinnu hafði henni tekist að fá styrk til að stunda nám við Alabamaháskóla,“ sagði Dave í samtali við Daily Mail.

Útskriftarferðin

Það leið að lokum þriggja ára náms Natalee og 124 samnemenda hennar í Mountain Brook. Til að fagna því fór allur árgangurinn saman í útskriftarferð. Ferðin hófst þann 26. maí 2005 þegar þau flugu til Arúba. Þar átti að gista í fimm nætur og njóta lífsins.

Arúba er 29 kílómetra frá ströndum Venesúela og er í Karíbahafi. Þar bjuggu um 100.000 manns á þessum tíma.

Það fór ekki fram hjá mörgum þegar nemendurnir 125 komu til eyjunnar. Þeir drukku mikið, höfðu hátt og voru að langt fram á nótt. Þegar vaknað var að morgni voru fáir í sínu eigin rúmi, allt hafði ruglast um nóttina.

Hópurinn gisti á Holiday Inn og þar var starfsfólkið orðið ansi þreytt á hópnum og tilkynnti að ekki yrði tekið við útskriftarnemum að ári.

Natalee byrjaði dagana á Arúba með því að fá sér áfengi með morgunmatnum. Ef hún skilaði sér ekki í morgunmat var það merki um að hún hefði drukkið of mikið kvöldið áður.

Meira að segja vinum hennar fannst hún drekka of mikið.

Síðasta lífsmerkið

Oranjestad er höfuðborg Aruba og stærsti bærinn. Þetta er fallegur bær þar sem barir eru á hverju strái.

Þann 29. maí ákváðu Natalee og vinkonur hennar að fara á Carlos‘n Charlie‘s. Sá bar var þekktur fyrir að ungt fólk sótti hann, fólk sem drakk gjarnan skot úr nafla hvers annars undir dúndrandi mexíkóskri tónlist.

Um klukkan 01.30 yfirgaf Natalee barinn og vini sína. Sást til hennar yfirgefa barinn með þremur piltum. Þetta voru bræðurnir Satish, 18 ára, og Deepak Kalpoe, 21 árs, frá Súrínam og vinur þeirra Joran van der Sloot, 17 ára. Hann fæddist í Hollandi en hafði búið á Arúba síðan hann var þriggja ára. Hann stundaði nám við alþjóðlega einkaskólann á eyjunni og var besti íþróttamaður hans í tennis og knattspyrnu.

Út á við virtist hann vera fyrirmyndarnemandi og unglingur en móðir hans vissi að það var hann ekki. Hún hafði staðið hann að því að læðast út að næturlagi til að fara í spilavíti.

Nú sat hann í grárri Hondu með Natalee. Hún hékk hálf út um gluggann og veifaði handleggjunum og hrópaði: „Woohoo, Arúba!“ Hún hrópaði hátt, hún virtist vera glöð.

Eftir þetta hefur hvorki heyrst né spurst til hennar.

Aðeins 124 fóru heim

Það voru 125 nemendur sem fóru til Arúba en aðeins 124 fóru heim aftur til Alabama. Natalee skilaði sér ekki á flugvöllinn.

Um leið og ljóst var að hún var horfin flugu móðir hennar og stjúpfaðir til Arúba í einkaþotu. Nokkrum klukkustundum síðar voru þau komin á Holiday Inn. Elizabeth fékk aðstoð starfsmanns í móttökunni við að grafa upp heimilisfang Joran. Þangað fóru þau síðan með lögreglunni.

Joran van der Sloot. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Joran og Deepak voru báðir í húsinu þegar þangað var komið. Þeir sögðust hafa ekið Natalee niður að strönd því hún hafi viljað sjá hákarla. Síðan hafi þeir ekið henni á hótelið um klukkan 2. Joran sagðist halda að Natalee hafi dottið þegar hún fór út úr bílnum og hafi ekki viljað neina hjálp.

Þeir sögðust hafa séð Natalee með einum öryggisvarða hótelsins þegar þeir óku á brott. Samt sem áður sást hún ekki á upptökum eftirlitsmyndavéla og næturvörðurinn á hótelinu sá hana ekki þessa nótt.

Handtökur

Næstu daga var mikil leit gerð að henni. Mörg hundruð sjálfboðaliðar tóku þátt í leitinni. Bankar á eyjunni gáfu fé til leitarinnar og 50 hollenskir hermenn gengu alla strandlengjuna í leit að Natalee, en án árangurs.

Sex dögum eftir að Natalee hvarf handtók lögreglan Abraham Jones, 28 ára öryggisvörð á hótelinu, og Nick John, 30 ára. Þeir voru grunaðir um mannrán og hugsanlegt morð. Þessar handtökur voru gerðar á grunni framburðar Joran.

En lögreglan hafði ekkert annað í höndunum en framburð Joran og því voru mennirnir fljótlega látnir lausir.

Í millitíðinni hafði óvænt vending orðið í málinu þegar Joran og Kalpoe-bræðurnir voru handteknir, grunaðir um mannrán og hugsanlega morð.

Fjölskyldan eyðilagði fyrir lögreglunni

Þremur dögum eftir hvarf Natalee fór lögreglan að fylgjast náið með piltunum þremur en vegna þrýstings frá fjölskyldu Natalee neyddist hún til að handtaka þá fyrr en ætlunin var.

Kalpoe-bræðurnir voru látnir lausir eftir um fjögurra vikna gæsluvarðhald, lögreglan hafði ekki næg gögn í höndunum til að fá þá úrskurðaða í lengra gæsluvarðhald. En Joran var áfram í haldi.

FBI lýsti eftir Natalee.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þann 17. júní var plötusnúður á Carlos‘n Charlie‘s handtekinn á grunni framburðar þremenninganna. Paulus, faðir Jordan, var einnig handtekinn. Báðum var sleppt 26. júní.

Þann 26. ágúst voru Kalope-bræðurnir handteknir á nýjan leik.

Um það leyti hét fjölskylda Natalee háum verðlaunum fyrir upplýsingar sem gætu leitt til þess að lík hennar fyndist.

Margbreyttu framburði sínum

Í byrjun september voru þremenningarnir látnir lausir vegna skorts á sönnunargögnum. Þeir voru samt sem áður enn grunaðir í málinu. Þeir margbreyttu framburði sínum í yfirheyrslum hjá lögreglunni.

Fyrst sögðu þeir að Joran og Natalee hefðu farið saman úr bílnum við ströndina og að Joran hefði yfirgefið hana án þess að gera henni mein. Bræðurnir sögðu að Joran og Natalee hefðu verið að kyssast í aftursætinu á leiðinni á ströndina.

Joran breytti þá framburði sínum og sagði að bræðurnir hefðu ekið honum heim og síðan á brott með Natalee. Þetta sagði hann eftir að bræðurnir byrjuðu að gefa í skyn að Joran hefði myrt Natalee.

Lifði lífinu í Hollandi

Joran var látinn laus þann 5. september. Tveimur dögum síðar hélt hann til Hollands til að stunda nám við HAN háskólann í Arnhem.

Í mars 2006 veitti hann fjölmiðlum nokkur viðtöl sem vöktu mikla athygli. Hann sagði meðal annars að Natalee hafi viljað stunda kynlíf með honum á ströndinni en það hafi hann ekki viljað þar sem þau voru ekki með smokk. Hann sagði einnig að hún hafi viljað vera með honum á ströndinni alla nóttina en hann hafi viljað fara heim því hann átti að mæta í skóla næsta morgun.

Rannsóknin hélt áfram

Lögregan á Aruba var enn að leita að Natalee þegar hér var komið við sögu. Hafði hún varið 40% af fjármagni sínu í rannsóknina og leitina að Natalee. Þetta voru peningar sem áttu að duga til rekstrar lögreglunnar í heilt ár.

Í apríl 2007 tók hollenska lögreglan við rannsókn málsins að beiðni yfirvalda á Aruba.

Í apríl 2007 hóf hollenska lögreglan að rannsaka málið og sneri heimili Joran á Arúba við og gróf í garðinum. Því næst var það sama gert heima hjá bræðrunum. En ekkert markvert fannst.

Natalee og móðir hennar. Skjáskot/YouTube

 

 

 

 

 

Í nóvember var Joran handtekinn í Hollandi og fluttur til Arúba. Bræðurnir voru einnig handteknir, lögreglan sagðist hafa aflað nýrra sönnunargagna.

Nú var leitað að lík Natalee í sjónum, farið var nákvæmlega yfir hafsbotninn.

Í lok nóvember lét dómari bræðurna lausa vegna skorts á sönnunargögnum og átta dögum síðar lét hann Joran lausan.

Ekkert fannst við leitina í sjónum og á hafsbotni.

Gekk í gildru

Þann 11. janúar 2008 var Joran gestur í vinsælasta spjallþættinum í hollensku sjónvarpi, Pauw & Witteman. Hann var spurður erfiðra spurninga um málið og raunar stillt upp við vegg af Peter R. de Vries sem sérhæfir sig í umfjöllun um sakamál. Þegar útsendingunni var lokið skvetti Joran úr vínglasi framan í fréttamanninn, hann vissi ekki að upptökuvélarnar voru enn í gangi.

Í þrjú ár hafði hann neitað að hafa verið viðstaddur þegar Natalee tók síðasta andardráttinn.

En hann vissi ekki að fyrrum fíkniefnasali ætlaði sér að koma upp um hann. þetta var Patrick van der Eem frá Curaco. Hann hafði hlotið dóma fyrir fíkniefnalagabrot. Á vinstri kinninni var hann með greinilegt ör, stórt ör sem minnti hann daglega á fortíðina.

Joran leið vel með Patrick og taldi þá vera vini. Hann vissi ekki að Patrick starfaði fyrir  de Vries. Eftir sjónvarpsútsendinguna hafði hann unnið að því að koma upp um Joran og hafði fengið Patrick til liðs við sig. Patrick hafði mánuðum saman unnið að því að vinna sér traust Joran, til dæmis með því að taka kókaín fyrir framan hann.

Þegar þeir fóru saman í bíltúr sagði Joran honum frá nóttinni sem Natalee dó. Hann sagði að þau hefðu stundað kynlíf á ströndinni og að Natalee hefði fengið einhverskonar áfall á meðan. Þegar hún var orðin meðvitundarlaus hafi hann hringt í vin sinn og þeir síðan siglt með hana á haf út þar sem þeir hentu henni útbyrðis án þess að kanna hvort hún væri á lífi.

Allt var þetta tekið upp með falinni myndavél.

Þann 3. febrúar horfðu sjö milljónir Hollendinga á upptökuna í sjónvarpinu.

Saksóknarar á Arúba vildu fá handtökuheimild útgefna á hendur Joran á grunni játningarinnar en dómari neitaði að verða við kröfunni.

Joran gekk því laus, sagðist aðeins hafa sagt þetta við Patrick til að ganga í augun á honum.

Flutti úr landi

Joran flutti síðan til Taílands til að stunda háskólanám. En hann hætti námi eftir skamman tíma og opnaði pitsastað.

De Vries var enn á hæla hans og í nóvember var önnur upptaka, gerð með falinni myndavél, sýnd í hollensku sjónvarpi. Hún sýndi Joran undirbúa sölu á taílenskum konum. Hann fékk sem nemur um tveimur milljónum íslenskra króna fyrir hverja konu sem hann seldi í vændi í Hollandi.

Joran sneri aftur til Arúba 2010 þegar faðir hans lést skyndilega.

Vildi fá greitt fyrir að segja frá

Í lok mars fékk Elizabeth, móðir Natalee, skilaboð frá lögmanni sínum um að Joran væri reiðubúinn til að segja hvað kom fyrir Natalee og upplýsa hvar líkamsleifar hennar væru. Fyrir þetta vildi hann fá sem svarar til um þrjátíu milljónum íslenskra króna. Hann var blankur og ætlaði að verða sér úti um peninga með þessu.

Lögmaðurinn kom á fundi og flaug til Aruba í til að afhenda Joran hluta af peningunum. Þegar hann fékk næstu greiðslu afhenta náðust myndir af því.

Í framhaldinu segir hann að faðir hans hafi grafið lík Natalee í grunni húss eins. En þetta var ekki rétt því húsið var ekki byggt fyrr en löngu eftir að Natalee hvarf.  Lögmaðurinn fékk síðan tölvupóst frá Joran þar sem hann sagði þetta allt vera uppspuna frá rótum. Þá var hann kominn til Perú.

Dæmdur fyrir morð

Það var komið fram á árið 2010 og dagurinn var 30. maí. Það voru nákvæmlega fimm ár síðan Natalee sást í bílnum með Joran.

Á þessum degi var tilkynnt um hvarf Stephany Flores, 21 árs, í Lima, höfuðborg Perú. Þremur dögum síðar fannst Flores, sem var háskólanemi, látin í hótelherbergi. Joran var með það á leigu.

Daginn eftir var hann handtekinn í Chile og framseldur til Perú.  Fjórum dögum síðar játaði hann að hafa myrt Flores. Hann sagði að hún hafi í leyfisleysi opnað fartölvuna hans og fundið upplýsingar sem tengdu hann við morðið á Natalee.

Þann 11. júní var hann fundinn sekur um rán og morð af yfirlögðu ráði. Hann var dæmdur í 28 ára fangelsi.

Tveimur árum síðar kvæntist hann perúskri konu í fangelsinu en hún var þá gengin sjö mánuði með barn þeirra.

Sama ár stakk samfangi hans hann. Joran særðist alvarlega en lifði af.

Úrskurðuð látin

Líkamsleifar Natalee hafa ekki fundist og enn er ekki vitað hvað kom fyrir hana en hún var úrskurðuð látin 2012 af dómara þrátt fyrir mótmæli móður hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn í Teslunni: Konan fór frá honum um jólin vegna gruns um framhjáhald

Maðurinn í Teslunni: Konan fór frá honum um jólin vegna gruns um framhjáhald
Pressan
Fyrir 2 dögum

Nóbelsverðlaunahafi segir auknar líkur á að gervigreind útrými mannkyninu

Nóbelsverðlaunahafi segir auknar líkur á að gervigreind útrými mannkyninu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta hefur aspasspákonan að segja um árið 2025

Þetta hefur aspasspákonan að segja um árið 2025
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skoskur grínisti sturlaðist á bandarískum flugvelli

Skoskur grínisti sturlaðist á bandarískum flugvelli
Pressan
Fyrir 4 dögum

Árásarmaðurinn fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum og þjónaði í hernum – Lögregla skoðar möguleg tengsl við ISIS

Árásarmaðurinn fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum og þjónaði í hernum – Lögregla skoðar möguleg tengsl við ISIS
Pressan
Fyrir 4 dögum

Dularfulla brúin í Skotlandi – Af hverju stökkva hundar í dauðann þegar þeir koma að henni?

Dularfulla brúin í Skotlandi – Af hverju stökkva hundar í dauðann þegar þeir koma að henni?