Maður sem grunaður er um að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana í Ólafsfirði í byrjun október hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi.
Þetta staðfestir verjandi mannsins, Snorri Sturluson, í stuttu samtali við DV. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manninum rann út kl. 18 í kvöld, mánudaginn 7. október. Samkvæmt upplýsingum frá Snorra krafðist lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, sem fer með rannsókn málsins, ekki framlengingar á gæsluvarðhaldi.
Ljóst er að rannsókn málsins er hvergi nærri lokið. Samkvæmt heimildum DV mun maðurinn hafa neitað sök í málinu og borið við að Tómas hafi hlotið áverka sína eftir að hann réðst á hann. Ekki er vitað hvort borið sé við sjálfsvörn eða hvort Tómas hafi látist fyrir slysni í átökunum sem maðurinn segir að Tómasi hafi átt upptökin að.
Staðfestar heimildir herma að Tómas hafi komið reiður í íbúð á Ólafsfirði þar sem fyrir voru hinn grunaði, eiginkona Tómasar, sem er vinkona hins grunaða, og kona sem var húsráðandi á vettvangi, en atburðurinn átti sér stað í íbúð sem hún leigir. Hinn grunaði og konurnar tvær voru öll í gæsluvarðhaldi í fyrstu en síðan var konunum tveimur sleppt.
DV hefur ekki upplýsingar um hvernig rannsókn málsins miðar og hvort ákæra á hendur manninum sé líkleg eða ekki. Sá möguleiki er fyrir hendi að lát Tómasar verði úrskurðað sem slys en ómögulegt er að ráða í það á þessum tímapunkti.