Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og sparkspekingur, telur að Erik ten Hag geti náð árangri með Manchester United en að hann þurfi tíma.
Ten Hag tók við sem stjóri United í sumar. Liðið byrjaði tímabilið í ensku úrvalsdeildinni illa en hefur svo tekið við sér og er í fimmta sæti.
Rauðu djöflarnir voru þó ekki upp á sitt besta í gær og töpuðu 3-1 fyrir Aston Villa.
„Fremstu þrír hjá United eru þeir lélegustu af stærstu sex liðunum,“ segir Neville um vandamál United.
Hann telur að fólk þurfi að stíga varlega til jarðar í umræðunni um það hvort „gamla United“ sé snúið aftur.
„Ég held að Ten Hag sé að ná því besta úr þeim. Hann þarf tvö eða þrjú ár í viðbót og nokkra félagaskiptaglugga. Það eru merki um að liðið sé að verða betra en United er ekki komið aftur.“