fbpx
Þriðjudagur 14.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Grund í hundrað ár

Eyjan
Mánudaginn 7. nóvember 2022 17:30

Hjúkrunarheimilið Grund

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Í byrjun síðustu aldar var aðbúnaður gamalmenna víða afar bágborinn, engar almannatryggingar komnar til sögunnar og þeir sem voru óvinnufærir bjuggu flestir við örbirgð. Ekki bætti úr skák að verulega skorti á samhygð með þeim sem voru minni máttar. Nefna má sem dæmi þar um; gamlan mann sem um það leyti hafði búið á höfuðbóli í einni Breiðafjarðareyja um árabil en var orðinn slitinn og hrumur og því að mestu óvinnufær. Honum var sagt að hafa sig á brott hið fyrsta. Er nótt tók yfir gekk gamli maðurinn út til sjávar og hvarf í hafið.

 

Bætt úr brýnum vanda

Í hinum vaxandi höfuðstað varð vandinn einna verstur við að etja og hér bjó fjöldi aldraðra við afleitan kost. Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason í Ási (sem nú er við Sólvallagötu) hélt vestur um haf á árum fyrri heimsstyrjaldar og kynntist á slóðum Íslendinga í Kanada elliheimilinu Betel sem Lútherska kirkjufélagið hafði stofnað 1915. Hann varð djúpt snortinn og heillaður af þeim anda sem þar ríkti og kynntist af eigin raun hversu vel var búið að öldruðum íbúum heimilisins. Þarna kviknaði sú draumsýn að koma á fót sambærilegu heimili í Reykjavík.

Sigurbjörn hafði árið 1913 haft forgöngu um stofnun líknarfélagsins Samverjans ásamt Páli Jónssyni, kaupmanni frá Hjarðarholti. Félagið beitti sér fyrir málefnum bágstaddra í bænum og hélt til að mynda skemmtanir í Iðnó fyrir blinda og aldraða sumarið 1921. Þar safnaðist allmikið fé. Þetta varð Sigurbirni hvatning og hann sagði frá því í dagblaðinu Vísi að rétt væri að verja þessum fjármunum til að koma á fót elliheimili i Reykjavík. Málið komst þegar á rekspöl. Fjölmargir borgarar lögðu til fé og haustið 1922 leit elliheimilið loks dagsins ljós — eða fyrir réttum hundrað árum. Komið var á fót sjálfseignarstofnun um rekstur þess og því fundinn staður í nýlegu steinhúsi vestur á Melum sem gefið var nafnið Grund.

Gamla Grund á Melunum var bara hugsuð til bráðabirgða. Þegar var farið að huga að byggingu reisulegs elliheimilis. Stórbygging Grundar við Hringbraut var vígð 28. september 1930 en ótrúlegt má teljast hvernig aðstandendum elliheimilisins tókst að safna nægilegum fjármunum til byggingarinnar og opna hana í tæka tíð. Allur aðbúnaður var þá eins og á bestu gistihúsum landsins.

Sama fjölskyldan frá upphafi

Ráðsmaður Grundar frá upphafi var Haraldur Guðmundsson. Hann stríddi við erfið veikindi þegar kom fram á fjórða áratuginn og lést 13. október 1934. Sigurbjörn Ástvaldur fékk Gísla son sinn til að vera á skrifstofunni í nokkra daga meðan stjórnarnefnd heimilisins fyndi einhvern í starfið en úr varð að Gísli tók við starfrækslu Grundar.

Hann lét fljótt til sín taka og með ráðdeild og hagsýni tókst honum að greiða upp skuldir þrátt fyrir erfiðleika við innheimtu vistgjalda. Gísli var langt á undan sinni samtíð á mörgum sviðum. Hann lagði til að mynda áherslu á sjálfbærni heimilisins hvað varðar aðföng; heimilið ræktaði grænmeti, leigð var jörð og bú rekið til mjólkurframleiðslu og um tíma hafði Grund garðsvæði í Kringlumýri til ræktunnar. Þetta var mikilvægt fyrir heimilið og ekki síst þegar kom fram á styrjaldarárin og vöruskortur og verðbólga herjuðu á landsmenn.

Gísli Sigurbjörnsson lést 7. janúar 1994, 86 ára að aldri. Hann hafði þá verið forstjóri Grundar í tæp 60 ár. Í hugum landsmanna voru nöfn Grundar og Gísla órjúfanlega tengd. Hann stjórnaði af röggsemi, metnaði og sterkum vilja. Í viðtali sagði hann einhverju sinni: „Eitt þoli ég ekki og það er fúsk. Það á að gera hlutina vel.“ Reksturinn gekk vel allan þann tíma sem hann var undir stjórn Gísla, enda var hann vakinn og sofinn yfir velferð Grundar.

Guðrún, dóttir Gísla, tók við starfi föður síns og Gísli Páll Pálsson sonur hennar er nú forstjóri Grundar. Enn er því sama fjölskyldan við stjórnvölinn á Grundarheimilunum við Hringbraut, í Ási og Mörkinni.

Megum vera þakklát

Fyrir þremur árum tók ég á móti sendinefnd þýskra stjórnmálamanna sem kom hingað til lands til að kynna sér öldrunarmál. Forsvarsmenn Grundar sýndu sendinefndinni alla aðstöðu í Mörkinni og fræddu hina erlendu gesti um starfsemina. Þjóðverjarnir áttu varla orð til að lýsa hrifningu sinni; svo mjög heilluðust þeir af því sem fyrir augu bar. Þessi kynning var mér sjálfum opinberun á því merkilega starfi sem Grund hefur unnið síðastliðna öld.

Í öllu svartagallsrausi um velferðarmálin missum við stundum sjónar á því hversu vel er búið að mörgu hér á landi og mikilvægi þess hlutverks sem frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir eins og Grund hafa átt í uppbyggingu velferðarkerfisins en nefna mætti líka Sjómannadagssamtökin sem reistu Hrafnistuheimilin og Samband íslenskra berklasjúklinga (SÍBS) sem kom á fót vinnu- og endurhæfingarhælinu á Reykjalundi.

Öldrunarmálin munu óhjákvæmilega vera ofarlega á baugi næstu árin og áratugina með hækkandi lífaldri þjóðarinnar. Og við áframhaldandi uppbyggingu þjónustu við aldraða er samfélaginu ómetanlegt að geta byggt á þeirri miklu reynslu og þekkingu sem safnast hefur saman í hundrað ára sögu Grundar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
23.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar