Erling Braut Haaland hefur verið hreint magnaður fyrir Manchester City frá því hann kom til félagins frá Borussia Dortmund í sumar.
Norski framherjinn hefur farið fram úr björtustu vonum flestra stuðningsmanna Manchester City og skorað átján mörk í fyrstu tólf leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Þrátt fyrir magnaðan árangur er þetta ekki besta byrjun tímabils hjá leikmanni er varðar markaskorun í ensku úrvalsdeildinni.
Luis Suarez skoraði nefnilega nítján mörk í fyrstu tólf leikjum sínum á tímabilinu 2013-2014. Hann var á mála hjá Liverpool.
Markaskorun hans var nálægt því að tryggja Liverpool sigur í ensku úrvalsdeildinni vorið 2014, en City hafði þá betur. Suarez skoraði í heildina 31 mark þetta tímabilið, þrátt fyrir að hafa misst af fyrstu sex leikjunum vegna leikbanns.
Haldist Haaland heill á hann þó góðan möguleika á því að slá metið yfir flest mörk skoruð á tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Sem stendur á Mohamed Salah það, en hann gerði 32 mörk tímabilið 2017-2018.