Portúgalska goðsögnin Paulo Futre hefur tjáð sig um stöðu landa síns Cristiano Ronaldo hjá Manchester United.
Ronaldo neitaði í síðasta mánuði að koma inná sem varamaður í leik gegn Tottenham en Erik ten Hag, stjóri Man Utd, vildi nota sóknarmanninn á lokametrunum.
Ronaldo tók það ekki í mál og neitaði að koma inná og var stuttu seinna horfinn og hélt til búningsklefa.
Futre er á því máli að Ronaldo hafi tekið rétta ákvörðun og að Ten Hag hafi aðeins verið að niðurlægja goðsögnina með þessari ákvörðun.
Futre er fyrrum leikmaður portúgalska landsliðsins og lék með Atletico Madrid frá 1987 til 1993.
,,Ten Hag getur ekki gert það sem hann gerði. Ég virði hann en Cristiano hefur unnið Ballon d’Or fimm sinnum,“ sagði Futre.
,,Þú getur ekki sagt Ronaldo að koma inná sem varamaður þegar tvær mínútur eru eftir. Það er niðurlæging.“
,,Ef það er kallað í Ronaldo á hann allavega að spila 20 mínútur, ekki tvær. Ef ekki þá er betra að láta hann vera.“
,,Það er verið að niðurlægja hann þarna og það er rétt hjá honum að yfirgefa bekkinn.“