Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var í stuði á blaðamannafundi í gær eftir leik liðsins við Fulham.
Guardiola svaraði þar ummælum Zlatan Ibrahimovic en þeir unnu saman hjá Barcelona á sínum tíma.
Zlatan vildi meina að egó Guardiola gæti komið í veg fyrir að Erling Haaland myndi ná hæstu hæðum en hann þekkir það sjálfur að vinna fyrir Spánverjann.
Guardiola tók í gríni undir ummæli Zlatan en Haaland er mesta vonarstjarna fótboltans þessa stundina og hefur raðað inn mörkum fyrir Englandsmeistarana eftir komu frá Dortmund í sumar.
,,Hann hefur rétt fyrir sér, hann hefur algjörlega rétt fyrir sér – hjá þessu félagi þá er egóið mitt stærra en hjá öllum öðrum,“ sagði Guardiola.
,,Ég er ekki hrifinn af því þegar Erling skorar þrjú mörk, það er bara fjallað um hann. Ég er svo öfundsjúkur, svo öfundsjúkur.“
,,Ég bað Erling um að hætta að skora mörk því annars myndu The Sun og Daily Mail hætta að tala um mig.“