Maurizio Sarri, stjóri Lazio og hans starfsmenn, lentu í leiðindaratviki á fimmtudag í Evrópuleik gegn Feyenoord.
Þessi lið áttust við í Hollandi en Feyenoord hafði betur 1-0 og tryggði sér farseðilinn í næstu umferð keppninnar.
Lazio endar riðilinn í þriðja sæti og mun því spila í Sambandsdeildinni. Liðið var á eftir bæði Feyenoord og Midtjylland sem voru í efstu tveimur sætunum.
Sarri segir að stuðningsmenn Feyenoord hafi ekki verið upp á sitt besta í leiknum en þeir pissuðu í poka og köstuðu í átt að varamannaskýli Lazio.
Það er væntanlega mjög óþægileg upplifun en Sarri tjáði sig í stuttu um málið í gær.
,,Þeir pissuðu í poka og hentu í okkur á varamannabekknum,“ sagði Sarri við blaðamenn.
,,Það er í raun óþarfi að bæta við að það var nokkuð pirrandi.“