Landsréttur tók í dag fyrir mál gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni en héraðssaksóknari ákærði hann fyrir kynferðislega áreitni gegn Carmen Jóhannesdóttur vegna atviks sem átti sér stað í matarboði á heimili Jóns og Bryndísar Schram á Spáni sumarið 2018. Jón var sakaður um að hafa strokið Carmen „utan klæða upp og niður eftir rassi.“
Jón Baldvin var sýknaður af ákærunni í héraðsdómi en héraðssaksóknari áfrýjaði málinu til Landsréttar. Meðal þeirra sem báru vitni í dag voru Carmen, Jón Baldvin og Bryndís Schram. Framburður þeirra úr héraðsdómi var spilaður af bandi og þau beðin um að staðfesta hann eða gera athugasemdir við hann.
Dómur Landsréttar í málinu fellur innan fjögurra vikna.