Í dag var réttað yfir ungum manni í Héraðsdómi Reykjavíkur, en hann er ákærður fyrir líkamsárás á starfsmann Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Árásin átti sér stað mánudaginn 2. ágúst 2021. Í ákæru segir að árásin hafi átti sér stað innandyra í Borgartúni 6, en það gæti verið misritun, þar sem velferðarsviðið er til húsa í Borgartúni 10-12.
Í ákæru segir að hinn ákærði hafi slegið starfsmanninn hnefahöggi í andlitið þannig að starfsmaðurinn féll við og lenti á vinstri öxl með þeim afleiðingum að hann hlaut sár og mar á neðri vör og mar á vinstri öxl.
Bæði meintur árásarmaður og þolandi eru ungir að árum. Hinn ákærði er fæddur árið 1995 og sá sem varð fyrir árásinni er fæddur árið 1994.
Dómur fellur í málinu á næstu vikum.