Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að Albaninn Shpetim Qerimi sitji í gæsluvarðhaldi þar til endanlegur dómur er fallinn í máli hans, en þó ekki lengur en til 31. janúar 2023.
Shpetim er einn fjórmenninganna sem fyrir skömmu fengu langa fangelsisdóma vegna morðsins í Rauðagerði í janúar 2021. Shpetim fékk 14 ára fangelsi fyrir að hafa lagt á ráðin um morðið ásamt hinum þremur og aðstoðað.
Shpetim hefur sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Ef Hæstiréttur samþykkir að taka mál hans fyrir verða örlög hans ljós þegar dómur Hæstaréttar fellur. Hann kærði gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms og vildi ganga laus fram að dómsuppkvaðningu. Shpetim, rétt eins og tveir aðrir sakborningar í málinu, var sýknaður í héraðsdómi. Þar var Angjelin einn sakfelldur fyrir morðið. Landsréttur sneri þeim dómi við.
Sem fyrr segir hefur Landsréttur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurðinn, meðal annars á þeim forsendum að það muni misbjóða rétttlætiskennd almennings ef Shpetim gengur laus þar sem hann sé sakfelldur fyrir mjög alvarlegan glæp.