Þýski sóknarmaðurinn Timo Werner mun missa af komandi Heimsmeistaramóti í knattspyrnu, sem hefst í Katar síðar í mánuðinum, vegna meiðsla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þýska úrvalsdeildarfélaginu RB Leipzig en um áfall er að ræða fyrir þýska landsliðið.
Werner meiddist í leik með RB Leipzig gegn Shakhtar í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi og nú hefur verið staðfest að meiðslin, sem eru á ökkla, munu halda honum frá þátttöku á HM.
Þessi 26 ára gamli Þjóðverji gekk til liðs við RB Leipzig frá Chelsea fyrir yfirstandandi tímabil. Eftir erfiða tíma í Lundúnum hefur Werner tekist að rétta úr kútnum hjá sínu fyrrum félagi og hefur hann skorað 9 mörk í sextán leikjum á tímabilinu. Auk þess hefur hann gefið fjórar stoðsendingar.
Þýskaland er með Spáni, Kosta-Ríka og Japan í E-riðli og er fyrsti leikur liðsins gegn Japan 23. nóvember næstkomandi á Khalifa International leikvanginum í Al Rayyan.
Bittere Nachricht.
Timo Werner hat sich im Spiel gegen Schachtar Donezk am linken Sprunggelenk verletzt.
Die heutigen Untersuchungen in Leipzig ergaben leider einen Riss des Syndesmosebandes. Timo Werner wird damit für den Rest des Jahres ausfallen. pic.twitter.com/awG3mS7KY2
— RB Leipzig (@RBLeipzig) November 3, 2022